Íslenski boltinn

Hjörtur Logi hefur lagt skóna á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjörtur Logi í leik með FH.
Hjörtur Logi í leik með FH. Vísir/Hulda Margrét

Hjörtur Logi Valgarðsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann lék með FH í efstu deild karla í fótbolta síðasta sumar en samningur hans rann út í kjölfarið. Óvíst var hvað hann myndi gera í sumar en hann tók alla vafa af er hann tilkynnti að skórnir væru farnir upp í hillu.

Hinn 33 ára gamli Hjörtur Logi hóf og endaði ferill með FH í Hafnafirði. Þá lék hann sem atvinnumaður með Gautaborg og Örebro í Svíþjóð sem og Sogndal í Noregi. Hann lék einnig 10 A-landsleiki á sínum tíma sem og 21 yngri landsleik.

Hjörtur Logi var hluti af einkar öflugu FH-liði áður en hann hélt á vit ævintýranna árið 2011 er hann gekk í raðir Gautaborgar. Alls varð hann Íslandsmeistari þrívegis og bikarmeistari tvívegis.

„Jæja, þá er þessum kafla lokið. Kannski aðeins fyrr en mig hefði langað til, en meiðsli hafa sett strik í reikninginn. Ég lít til baka stoltur og þakklátur fyrir allar þær upplifanir sem boltinn hefur gefið mér en nú er kominn tími á næsta kafla,“ segir landsliðsmaðurinn fyrrverandi í færslu á Instagram þar sem hann tilkynnir að skórnir séu farnir upp í hillu.

Eftir að ganga aftur í raðir FH fyrir sumarið 2018 hefur bakvörðurinn verið að glíma við ýmisleg meiðsli og spilaði hann aðeins sjö af 22 deildarleikjum liðsins síðasta sumar.

FH hefur leik í Bestu-deildinni þann 18. apríl er liðið heimsækir Íslands- og bikarmeistara Víkings.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport en nýtt keppnistímabil hefst 18. apríl. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×