Fótbolti

Villareal sló þýsku meistarana úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samuel Chukwueze skoraði markið sem tryggði Villareal sæti í undanúrslitum.
Samuel Chukwueze skoraði markið sem tryggði Villareal sæti í undanúrslitum. Christian Kaspar-Bartke/Getty Images

Villareal gerði sér lítið fyrir og sló þýsku meistarana í Bayern München úr leik í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Lokatölur urðu 1-1, en Villareal vann fyrri leik liðanna 1-0 og er því á leið í undanúrslit.

Líklega bjuggust flestir við miklum yfirburðum Bayern í kvöld og sú varð raunin. Liðið var tæplega 70 prósent með boltann og sótti án afláts.

Þrátt fyrir það tókst liðinu ekki að brjóta ísinn fyrir hálfleikshléið og því var staðan 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Það var svo markamaskínan Robert Lewandowski sem kom boltanum loksins í netið fyrir heimamenn í Bayern á 52. mínútu og staðan því orðin jöfn í einvíginu.

Heimamenn héldu áfram að sækja eftir markið og freistuðu þess að tryggja sér sigurinn. Það varð til þess að gestirnir gátu sótt hratt, og það er nákvæmlega það sem þeir gerðu. Samuel Chukwueze jafnaði metin fyrir Villareal á 88. mínútu þegar hann batt endahnútinn á vel útfærða skyndisókn.

Heimamenn í Bayern reyndu hvað þeir gátu til að jafna einvígið, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli. Villareal er því á leið í undanúrslit eftir samanlagðan 2-1 sigur þar sem liðið mætir annað hvort Liverpool eða Benfica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×