Innlent

Sam­þykkja kaup­til­boð í Tý og Ægi

Atli Ísleifsson skrifar
Varðskipið Ægir við Skarfabakka í Reykjavík.
Varðskipið Ægir við Skarfabakka í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Ríkiskaup hafa samþykkt kauptilboð í varðskipin Tý og Ægi. Kaupandinn er íslenskur og kaupir hann bæði skipin en nafn hans hefur ekki verið gefið upp.

Kaupverðið hefur heldur ekki verið gefið upp að því er fram kemur í Morgunblaðinu í morgun.

Blaðið hafði áður greint frá því að tvö tilboð hefðu borist fyrir nokkrum mánuðum og var hið hærra upp á 125 milljónir króna en hitt hljóðaði upp á átján milljónir. Þau tilboð voru hinsvegar ekki bindandi og því liggur ekki fyrir hvort gengið hafi verið til samninga við þann sem átti hærra tilboðið. 

Helena Rós Sigmarsdóttir hjá Ríkiskaupum segir að tilboðið sem nú hafi verið samþykkt sé bindandi og því megi vænta að drög að kaupsamningi séu langt á veg komin. Kaupverðið verður síðan gefið upp þegar endanlegir samningar liggja fyrir. 

Varðskipið Týr var á sínum tíma dýrasta og fullkomnasta skip Íslendinga en það kom fyrst til Reykjavíkur árið 1975. Ægir er enn eldra en það var smíðað í Danmörku árið 1968 og kom til landsins sama ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×