Fótbolti

„Ætlum að ná í þessi þrjú stig“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eitt marka Íslands í stórsigrinum á Hvíta-Rússlandi.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eitt marka Íslands í stórsigrinum á Hvíta-Rússlandi. vísir/bjarni

Berglind Björg Þorvaldsdóttir segir að íslenska fótboltalandsliðið sé ánægt með hvernig það spilaði í 0-5 sigrinum á Hvíta-Rússlandi á fimmtudaginn. Á þriðjudaginn mætir Ísland svo Tékklandi í afar mikilvægum leik í undankeppni HM.

„Við áttum góðan leik, skoruðum fimm mörk og hefðum getað skorað fleiri. Við mætum með fullt af sjálfstrausti í leikinn á þriðjudaginn,“ sagði Berglind í samtali við Vísi á hóteli íslenska liðsins í Prag í dag.

Leikurinn á þriðjudaginn verður þriðji leikur Íslands og Tékklands á sex mánuðum. Íslendingar unnu fyrstu tvo leikina. Annan þeirra í undankeppni HM, 4-0, og hinn á SheBelieves mótinu í Bandaríkjunum, 1-2.

„Þetta er hörkulið og verður hörkuleikur. Hann er gríðarlega mikilvægur. Við þurfum að mæta 150 prósent í leikinn og gera okkar besta. Við ætlum að ná í þessi þrjú stig,“ sagði Berglind.

Klippa: Viðtal við Berglindi Björgu

Ef það gengur eftir er ljóst að Ísland verður á toppi C-riðils undankeppninnar fyrir síðustu tvo leikina í henni í haust, gegn Hvíta-Rússlandi á heimavelli og Evrópumeisturum Hollands á útivelli.

„Við hugsum bara um einn leik í einu. Næsti leikur er gegn Tékkum, við förum í hann til að vinna hann og það myndi koma okkur í góða stöðu í riðlinum,“ sagði Berglind.

Viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×