Innlent

Hundrað kíló­metrar af skjölum úti­standandi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Í dag má finna 46 hillukílómetra af skjölum á safninu.
Í dag má finna 46 hillukílómetra af skjölum á safninu. vísir/egill

Þjóð­skjala­safnið sér fram á mikla tækni­væðingu á næstu árum og segir öld pappírsins lokið. Fyrst verður þó að inn­heimta fjölda skjala sem hafa ekki skilað sér til safnsins og gæti safn­kosturinn tvö­faldast við það.

Safnið fagnaði 140 ára af­mæli sínu í gær og hélt að því til­efni sýningu á ýmsum gersemum sínum í dag.

Á meðal þeirra er til­laga sjálfs Kjarvals að ís­lenska þjóð­fánanum og ein­hverja frægasta fundar­gerð Ís­lands­sögunnar með orðum Jóns Sigurðs­sonar og fé­laga hans: Vér mót­mælum allir!

Fundargerðarbók Þjóðfundarins 1851 er varðveitt í Þjóðskjalasafninu.vísir/egill

Safnið státar þó af mun fleiri skjölum af öllum toga.

Í stærsta geymslu­rými safnsins, sem er ansi stórt eins og við komumst að þegar við heim­sóttum það í dag eru 3,5 hillukíló­metri af skjölum. Þetta er þó að­eins lítill hluti af safn­kostinum. Á safninu öllu eru nefni­lega 46 hillukíló­metrar af pappírs­skjölum.

Ef öskjunum sem skjölin eru geymd í yrði þannig raðað upp hlið við hlið myndu þær ná frá Reykja­vík og alla leið til Hvera­gerðis. Og raunar tveimur kíló­metrum lengra.

Hundrað kílómetrar útistandandi

Og ljóst er að safnið á eftir að stækka ansi mikið í náinni fram­tíð.

„Það er mikið sem er úti­standandi enn þá hjá af­hendingar­skyldum aðilum,“ segir Hrefna Róberts­dóttir þjóð­skjala­vörður.

Hafa þeir ekki verið alveg nógu dug­legir að skila inn gögnum til ykkar?

„Það má alltaf gera betur. En við þurfum líka að hafa hús­næði til að taka við því.“

Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður. vísir/egill

Og sá tíu þúsund fer­metra húsa­kostur sem safnið státar af í dag dugir ekki undir allt það magn sem á eftir að skila sér.

„Það má eigin­lega segja að það séu kannski hundrað hillukíló­metrar af gögnum,“ segir Hrefna.

Þannig að safn­kosturinn mun tvö­faldast eða hvað?

„Njah, við ætlum að stefna að því að fá eins mikið af sam­tímanum og við getum á raf­rænu formi þannig við stefnum að því að hann muni ekki alveg ná að tvö­faldast. En svona kannski ná­lægt því.“

Og geymsla skjala á raf­rænu formi tekur mun minna pláss en geymsla á pappír.

Fram­tíðin liggur auð­vitað í tækninni og því ljóst að söfnunar­á­rátta okkar verði ekki eins pláss­frek og hún hefur verið hingað til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×