Innlent

Segir Rússa hafa rænt á­hrifa­valdinum sem lifði af á­rásina á fæðingar­spítalann

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mariana Vishegirskaya flýr niður stiga á sjúkrahúsi sem varð fyrir sprengjuárás hinn 9. mars. Hún fæddi barn sitt daginn eftir í miðjum sprengjugný.
Mariana Vishegirskaya flýr niður stiga á sjúkrahúsi sem varð fyrir sprengjuárás hinn 9. mars. Hún fæddi barn sitt daginn eftir í miðjum sprengjugný. AP/Evgeniy Maloletka

Fréttaritarinn Thomas van Linge segir að úkraínsku konunni, sem lifði af árás Rússa á fæðingarspítala í Maríupól, hafi verið rænt af Rússum. Hún sé ein þeirra mörgu flóttamanna sem Rússar hafi beint frá Maríupól til Rússlands þvert á samninga.

Van Linge skrifar þetta á Twitter þar sem hann deilir myndbandi af konunni, Maríönnu Podgurskayu, sem tekið er af Rússum og birt í Rússlandi, þar sem hún gagnrýnir til að mynda ljósmyndara AP sem tók myndina af henni sem farið hefur um heim allan. 

Hún segir í myndbandinu að sprengja hafi sprungið á sjúkrahúsinu en segir ekkert meira um það, segir úkraínska hermenn hafa notað spítalann sem höfuðstöðvar og fleira á borð við þetta. Allt yfirlýsingar sem Rússar hafa haldið fram. 

Van Linge bendir þar að auki á að sendiráð Rússa í Genf sé eitt þeirra sem deili myndbandinu á Twitter, sem van Linge segir jafnast á við sönnun um það að Rússar séu á bak við gerð myndbandsins og Podgurskaya ekki haft mikið val. 

Christo Groznev bendir þá á að yfirvöld í Rússlandi virðist ekki sjálf ákveðin í því hvaða sögu þau vilji segja. Þau segist hafa sprengt spítalann því meðlimir vígasveitarinnar Azov hafi notað hann sem höfuðstöðvar. Þeir hafi samt ekki sprengt spítalann, Úkraínumenn hafi gert það sjálfir. Þá hafi engar óléttar konur verið í sjúkrahúsinu, bara leikkonur en svo er ólétta konan mætt í viðtal hjá þeim. 


Tengdar fréttir

Rússneska sendiráðið gagnrýnir íslenska fjölmiðla vegna umfjöllunar um Úkraínu

Sendiráð Rússlands á Íslandi hefur birt færslu á Facebook þar sem vísað er til þess að íslenskir miðlar hafi fjallað um að Facebook hafi fjarlægt færslur þar sem sendiráðið hélt því fram að Rússar hefðu ekki ráðist á fæðingar- og barnaspítala í Maríupól, heldur hefði verið um að ræða sviðsetningu af hálfu Úkraínumanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×