Innlent

Létu ekki duga að flýja lögreglu á bíl

Eiður Þór Árnason skrifar
Að venju komu mörg mál inn á borð lögreglu.
Að venju komu mörg mál inn á borð lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn hófu stutta eftirför á þriðja tímanum í nótt þegar ökumaður í miðbæ Reykjavíkur hlýddi ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.

Eftir að ökumaður stöðvaði bifreið sína hljóp hann ásamt farþega úr bifreiðinni en þeir voru á endanum handteknir eftir stutt hlaup. Voru þeir vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins, að sögn lögreglu.

Klukkan 19:30 var lögreglu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Kópavogi. „Tilkynnanda fannst háttalag einstaklinga sem komu á bifreið einkennilegt, en eftir að hafa lagt bifreið sinni gengu þeir á bifreiðar og reyndu að komast inn í þær,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Að sögn hennar voru höfð afskipti af einstaklingunum skömmu síðar og reyndist bifreiðin sem þeir komu á vera stolin. Einstaklingarnir voru handteknir og vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Tilkynnt var um líkamsárás á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur skömmu fyrir þrjú í nótt. Mikið var um að lögregla hafði afskipti af ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×