Umfjöllun og viðtöl: Fram - FH 24-24 | Framarar stálu stigi á lokasekúndunni

Dagur Lárusson skrifar
Fram stal stigi gegn FH í kvöld.
Fram stal stigi gegn FH í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

FH og Fram skildu jöfn í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 24-24, en sú úrslit þýða að FH á ekki lengur möguleika á deildarmeistaratitlinum.

Fyrir leikinn var FH með 26 stig í fjórða sæti deildarinn og búið að tapa tveimur leikjum í röð á meðan Fram var í tíunda sætinu með 14 stig.

Það voru FH-ingar sem réðu algjörlega ferðinni í fyrri hálfleiknum og voru allan hálfleikinn með nokkurra marka forystu. Ásbjörn Friðriksson og Leonharð Þorgeir báðir að spila mjög vel og drógu vagninn fyrir FH. Staðan í hálfleik 9-15 og því sex marka munur og lítið sem benti til þess að Fram myndi koma til baka.

Það var þó allt annað Fram lið sem mætti til leiks í seinni hálfleikinn og áttu FH-ingar í stökustu vandræðum með að finna lausn á sterkri vörn Fram á köflum. FH-ingar náðu þó að halda forystu sinni þar til á lokakaflanum en þá fór hún að minnka og minnka.

Þegar um átta mínútur voru eftir af leiknum náðu Framarar að jafna leikinn í fyrsta sinn síðan í byrjun leiks en þá tóku við æsispennandi lokamínútur. FH-ingar náðu aftur forystunni en Framara neituðu einfaldlega að gefast upp og fengu eina lokasókn til þess að jafna metin og halda möguleikanum á úrslitakeppninni á lífi. Stefán Darri fékk boltann, sendi hann á Þorstein sem fann Rógva á línunni sem fiskaði víti. Breki fór á vítalínuna og skoraði og tryggði Fram eitt stig.

Lokatölur í leiknum 24-24 en úrslitin þýða bæði að FH-ingar eiga ekki lengur möguleika á deildarmeistara titlinum og að Fram á ennþá möguleika á því að komast í úrslitakeppnina, þó svo að sá möguleiki sé heldur lítill.

Af hverju skildu liðin jöfn?

Það var lítið sem benti til þess að Fram ætti möguleika á að koma til baka þegar flautað var til hálfleiksins, FH-ingar voru einfaldlega yfir á öllum sviðum. En það var einfaldlega annað Fram lið sem mætti til leiks í seinni hálfleikinn og voru leikmenn liðsins tilbúnir að leggja sig alla fram og það skilaði að lokum stigi.

Hverjir stóðu upp úr?

Phil Döhler var frábær í marki FH og varði fimmtán skot en maður leiksins var Breki Dagsson. Hann skoraði átta mörk í leiknum og var lykilinn að endurkomu Fram í seinni hálfleiknum.

Hvað fór illa?

FH var með sex marka forystu í hálfleik og það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að klúðra slíkri forystu. FH skoraði fimmtán mörk í fyrri hálfleiknum en aðeins níu mörk í seinni og var það einfaldlega vegna þess að þeir áttu erfitt með að finna lausn á sterki vörn Fram. Það sama má segja með Fram í fyrri hálfleiknum, bæði lið áttu slæma hálfleika.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur liðanna er næsta miðvikudagskvöld en þá tekur FH á móti Aftureldingu og Fram tekur á móti Stjörnunni.

Einar Jónsson: Heldur þessu á lífi

Einar Jónsson, þjálfari Fram.Hulda Margrét

„Úr því sem komið var þá er ég mjög ánægður með stigið því þetta heldur okkur á lífi,” byrjaði Einar Jónsson, þjálfari Fram, að segja í viðtali eftir leik.

„Ef mér reiknast rétt, ég held að Afturelding sé með nítján stig og við erum þá komnir með fimmtán stig núna. Þannig þetta erum við, Grótta og Afturelding sem erum enn þá í þessari baráttu,” hélt Einar áfram.

Fram kom til baka í seinni hálfleiknum og vann upp sex marka forystu FH sem Einar var mjög sáttur með.

„Þetta vítakast var heldur mikilvægt hérna í lokin. En við eigum frábæran seinni hálfleik og frábærir ungu strákarnir sem koma hérna inn, Kjartan og og Stefán.”

Einar sagði að hann hafi breytt um vörn í hálfleiknum.

„Við breyttum um vörn í hálfleiknum, förum í 6-0 vörn og þá svona verður þetta allt annar leikur hjá okkur. Eins og við vorum slakir í fyrri hálfleik þá vorum við mjög góðir í seinni hálfleik. Það hefur svolítið einkennt okkur í vetur að við eigum bara 30 góðar mínútur í hverjum leik,” endaði Einar á að segja.

Sigursteinn Arndal: Mjög vonsvikinn hvernig við gefum eftir

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.Vísir/Vilhelm

„Þetta var ekki það sem við ætluðum okkur. Ég er mjög vonsvikinn með það hvernig við gáfum eftir, vorum ekki nægilega grimmir og því fór sem fór,” byrjaði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, að segja eftir leik.

Fyrir leikinn var FH búið að tapa tveimur leikjum í röð og er því aðeins með eitt stig í síðustu þremur leikjum. Sigursteinn vildi þó lítið fara út í það hvert vandamálið væri í þessum leikjum.

„Ég ætla ekkert að fara út í það hérna hvað það er sem vantar. Við þurfum bara að fara heim og reyna að ná tökum á þessu. En það er vissulega ekki mikið um æfingar þessa daganna á milli leikja, þetta snýst í raun meira um endurheimt og reyna að tala okkur í gegnum þetta og fara yfir myndbönd af leikjunum,” endaði fáorður Sigursteinn á að segja eftir leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira