Sport

Snorri Barón hjálpar „svörtum sauði“ CrossFit íþróttarinnar að snúa aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Barón Jónsson með Söru Sigmundsdóttur sem hefur verið skjólstæðingur hans lengi.
Snorri Barón Jónsson með Söru Sigmundsdóttur sem hefur verið skjólstæðingur hans lengi. Instagram/@snorribaron

Snorri Barón Jónsson er umboðsmaður fjölda heimsklassa CrossFit íþróttamanna og kvenna en hann er líka tilbúinn að gefa mönnum annað tækifæri.

CrossFit vefurinn Morning Chalk Up vekur athygli á samstarfi Ástralans Ricky Garard og íslenska umboðsmannsins. Garard er „svarti sauður“ CrossFit íþróttarinnar eftir að hafa skrifað sögu íþróttarinnar með mjög neikvæðum hætti.

Snorri Barón er mjög virtur í CrossFit samfélaginu en hann er meðal annars umboðsmaður Söru Sigmundsdóttur, Björgvins Karls Guðmundssonar og Sólveigar Sigurðardóttur sem og þeirra Romans Khrennikov, Gabrielu Miglala og Emma Lawson sem stóðu sig öll frábærlega í átta manna úrslitunum eins og íslensku stjörnurnar þrjár.

Ricky Garard er að snúa til baka eftir fjögurra bann frá CrossFit íþróttinni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Garard varð árið 2017 sá fyrsti verðlaunahafi á heimsleikunum sem fellur á lyfjaprófi. Kanadamaðurinn Patrick Vellner hoppaði þar með upp í þriðja sætið en hann var rændur tækifærinu á því að standa á pallinum.

Það er ekki auðvelt fyrir Garard að koma til baka með slíka fortíð en hann á nú bakland hjá Snorra Barón og umboðsfyrirtæki hans Bakland Management.

Garard hefur nú skrifað undir fyrsta styrktarsamning sinn við fyrirtæki síðan að Snorri gerðist umboðsmaður hans.

„Ég þekki það vel hvað er að klúðra sínum málum og brenna brýr,“ skrifaði Snorri Barón Jónsson meðal annars í pistli sínum á Instagram sem Morning Chalk Up vakti athygli á.

„Ég oft verið spurður af því hvort ég sé umboðsmaður Ricky. Allir eiga rétt á því að fá annað tækifæri og eftir að hafa hitt Ricky og átt grimmt spjall við hann þá þurfti ekki að sannfæra mig meira,“ skrifaði Snorri Barón.

„Hann sannfærði mig um að hann væri í þessu af réttum ástæðum. Hann villtist af leið en lærði sína lexíu og er nú að leið til endurheimta orðspor sitt,“ skrifaði Snorri Barón.

Ricky Garard stóð sig vel í átta manna úrslitunum um síðustu helgi því hann náði efsta sætinu í Eyjaálfu og varð ellefti yfir allan heiminn.

Snorri átti því bæði efsta manninn í Evrópu (Björgvin Karl Guðmundsson), efsta manninn í Eyjaálfu (Garard), efsta maninn í Asíu (Roman Khrennikov) og efstu konuna í Evrópu (Gabriela Migala). Það er ekki mikið hægt að kvarta yfir þessum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×