Viðskipti innlent

Máttu ekki bjóða milljón í bingóvinning

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Leyfi til að reka happdrætti má einungis veita félagi, samtökum eða stofnunum og tilgangurinn verður að vera að afla fjár til almannaheilla.
Leyfi til að reka happdrætti má einungis veita félagi, samtökum eða stofnunum og tilgangurinn verður að vera að afla fjár til almannaheilla. Getty

Minigarðurinn í Skútuvogi stendur fyrir risabingói á morgun, fimmtudaginn 31. mars. Fyrst stóð til að hafa eina milljón króna í beinhörðum peningum í verðlaun, en eftir tilmæli frá dómsmálaráðuneytinu var ákveðið að hörfa frá þeim fyrirætlunum.

Í tilkynningu frá Minigarðinum segir að dómsmálaráðuneytið hafi sent ábendingar á Minigarðinn um þau lagafyrirmæli sem gilda um happdrætti. Ráðuneytið kvað bingó vera eina tegund happdrætta og óheimilt sé að reka happdrætti þar sem spilað er upp á peninga án sérstakrar lagaheimildar.

Minigarðurinn mun því ekki bjóða tilvonandi bingóvinningshafa upp á eina milljón í vinning og hyggst endurgreiða þeim sem keypt hafa spjald og ekki vilja taka þátt af þessum sökum. Þeir sem hyggjast nýta bingóspjaldið fá tvö bingóspjöld fyrir hvert keypt spjald vegna breytinganna.

„Vinningar Risabingósins eru engu að síður stór glæsilegir, 100.000 gjafabréf frá Icelandair, 100.000 króna inneign á Samkaups appinu, 100.000 kr. gasgrill frá Húsasmiðjunni, 320.000 kr. Serta hjónarúm frá Betra Baki, útivistarfatnaður frá Cintamani, ofl. ofl.,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×