Handbolti

Liðsfélagarnir sjá miklar framfarir hjá yngsta Íslendingnum í bestu deild heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Már Rúnarsson ræðir hér við Guðjón Guðmundsson en Gaupi vildi frá að vita hvernig handboltalífið hans gengi hjá Styuttgart í Þýskalandi.
Andri Már Rúnarsson ræðir hér við Guðjón Guðmundsson en Gaupi vildi frá að vita hvernig handboltalífið hans gengi hjá Styuttgart í Þýskalandi. Stöð 2 Sport

Andri Már Rúnarsson sló í gegn með Fram í Olís deild karla á síðustu leiktíð. Það vakti mikla athygli þegar hann samdi við þýska úrvalsdeildarliðið Stuttgart þar sem honum var hent beint í djúpu laugina.

Guðjón Guðmundsson ræddi við yngsta atvinnumann Íslands í bestu handbolta deild heims en Anton Már tók stökkið síðasta sumar.

„Þetta er allt annað en þegar maður var hérna heima. Fyrstu mánuðirnir voru erfiðir þegar ég var að venjast nýju umhverfi og nýju liði. Ég kunni tungumálið og það hjálpaði mér mjög mikið. Þetta er sterkasta deild í heimi og maður finnur alveg fyrir því, bæði á æfingum sem og í leikjum,“ sagði Andri Már Rúnarsson.

„Ég spilaði miklu meira í byrjun en ég bjóst við og fékk þá mjög dýrmætar mínútur. Þær eru aðeins búnar að minnka upp á síðkastið en ég er ennþá með hlutverk og það gengur vel,“ sagði Andri Már.

Gaupi vildi fá að vita hvort að Andra hafi fundist honum hlaupa á vegg þegar hann kom inn í þýsku deildina eftir að hafa spilað í Olís deildinni.

Klippa: Ræddi við yngsta Íslendinginn í bestu deild heims

„Nei ég myndi ekki segja það. Ég vissi sirka út í hvað ég væri að fara. Ég fór líka í æfingabúðir hjá þeim og fékk þá að vera á æfingum þegar þeir vildu skoða mig. Þá fann ég alveg fyrir gæðunum á æfingunum og allt svoleiðis. Svo er ég búinn að vera að fylgjast með þessari deild síðan ég var lítill,“ sagði Andri Már.

Í Þýskalandi er mikil áhersla lögð á líkamlega þáttinn.

„Ég hef alveg fundið fyrir því að menn eru stórir og sterki í þessar deild. Maður vinnur núna í því markvisst. Ég tek þessar aukaæfingar og lyfti vel en samt ekki of mikið. Ég verð að gera þetta skref fyrir skref. Það er klárlega á dagskránni að bæta líkamlegan styrk og verða betri,“ sagði Andri Már.

Hvar sér Andri sjálfan sig vera að spila eftir tvö til þrjú ár?

„Það er góð spurning. Bara í stærra hlutverki, búinn að koma mér inn í deildina, vera í góðu hlutverki og spila mikið,“ sagði Andri Már.

En er hann ekki líka að horfa á A-landslið karla?

„Jú auðvitað. Það er alltaf draumur að spila fyrir A-landsliðið og það er eitt af mínu stóru markmiðunum akkúrat núna. Ég vinn markvisst að því,“ sagði Andri Már.

Þjálfararnir hans sjá framfarir hjá kappanum.

„Já þeir segja það þjálfararnir og leikmenn í kringum mig. Ég finn ekki mikið fyrir því en ég og þjálfarinn tóku gott spjall um áramótin. Leikmennirnir hafa sagt að frá því að ég kom fyrst í ágúst þá sjá þeir miklar framfarir,“ sagði Andri Már.

Það má horfa á allt viðtalið við Andra Már hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×