Enski boltinn

Orðljótur Rooney með skýr skilaboð fyrir Rashford

Sindri Sverrisson skrifar
Wayne Rooney og Marcus Rashford léku saman í Manchester United og enska landsliðinu.
Wayne Rooney og Marcus Rashford léku saman í Manchester United og enska landsliðinu. Getty/Simon Stacpoole

Wayne Rooney vill að Marcus Rashford „taki hausinn út úr rassinum“ og einbeiti sér að því að slá markametið sem Rooney á hjá Manchester United.

Rooney skoraði 253 mörk fyrir Manchester United og hinn 24 ára gamli Rashford á því langt í land með að ná því meti. Rashford hefur þó skorað 93 mörk í 297 leikjum fyrir United til þessa.

Rashford hefur hins vegar gengið illa í vetur og aðeins skorað fimm mörk. Hlutverk hans hefur minnkað og frá áramótum hefur hann aðeins byrjað þrjá deildarleiki. Hann var ekki valinn í enska landsliðshópinn á dögunum.

Samkvæmt helsta félagaskiptafréttamanni fótboltans í dag, Fabrizio Romano, er Rashford farinn að velta fyrir sér að yfirgefa United en hann er með samning við félagið sem gildir til sumarsins 2023.

Rooney er hins vegar á því að Rashford eigi að hætta að hugsa um annað en að skora mörk fyrir United og slá á endanum markametið hjá félaginu.

Rooney var viðstaddur fína samkomu í Manchester á laugardaginn þar sem hann sagði við The Sun: „Það að ná metinu og verða markahæstur í sögu United er helvíti rosalegt,“ og bætti við:

„Það sem ég vona er að Marcus Rashford drullist til að taka hausinn út úr rassinum og fari og slái þetta met. Hann er Manchester-strákur.“

Vill taka við Manchester United

The Sun hefur jafnframt eftir Rooney, sem er 36 ára og stýrir Derby, að hann hafi mikinn áhuga á að taka við sem knattspyrnustjóri Manchester United í framtíðinni:

„Aðalástæðan fyrir því að ég gerðist knattspyrnustjóri er Manchester United. Ég fékk tilboð um að mæta í viðtal vegna starfsins hjá Everton. Ég vil verða stjóri Manchester United. Ég veit að ég er ekki tilbúinn en allar mínar áætlanir verða að miða að því að það verði einn daginn að veruleika.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×