Innlent

Sýknaður eftir að mynd­band lög­reglu fannst ekki

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í gær, þann 25. mars.
Héraðsdómur Reykjaness kvað upp dóm í gær, þann 25. mars. Vísir/Vilhelm

Maður var sýknaður af ákæru fyrir að hafa ekið án ökuréttinda eftir að sönnunargögn lögreglu fóru forgörðum. Myndbandsupptaka lögreglu sem átti að varpa ljósi á málið fannst hvergi við málsmeðferðina og héraðsdómari taldi að vafa, vegna annmarka á rannsókninni, bæri að skýra ákærða í hag.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið án tilskilinna ökuréttinda en hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum vegna aksturs undir áhrifum áfengis. Samkvæmt framburði mannsins fyrir dómi stóð hann við bifreið vinkonu sinnar þegar lögreglumenn kölluðu til hans og hann taldi að um almennt eftirlit lögreglu væri að ræða.

Vinkona mannsins hafi skroppið inn í blokkina að sækja eitthvað og hann kvaðst hafa verið að bíða eftir henni, sem væri ökumaður bílsins. Hann hafi aðeins verið að bíða fyrir utan bílinn þegar lögregla kom á vettvang og sagðist ekki hafa haft í hyggju að keyra bílinn.

Lögreglumenn kváðust lítið muna eftir málinu fyrir dómi en sögðu hafið yfir allan vafa að maðurinn hafi verið stöðvaður við akstur. Vettvangsskýrsla hefði aldrei verið rituð ef vafi væri þar á og framburður mannsins stæðist því alls ekki. Þeir töldu að vinkonan hafi setið í farþegasæti en maðurinn keyrt bílinn.

Lykilsönnunargagn farið forgörðum

Héraðsdómari sagði óumdeilt að ákærði hafi verið sviptur ökuréttindum þegar lögregla kom að tali við hann umrætt kvöld. Ákærði neitaði því ekki.

Til grundvallar málsins lægi hins vegar vettvangsskýrsla lögreglumanna þar sem á vantaði að fyllt væri út í staðlaða reiti á þartilgerðu blaði. Héraðsdómari sagði ljóst að lögreglumönnum hefði verið hægur vandi að útfylla eyðublaðið af meiri nákvæmni.

Þá kvað héraðsdómari að ráða mætti af vettvangsskýrslu að meint brot mannsins hafi verið tekið upp á myndband. Upptakan fannst þó hvergi hjá lögreglu og dómari taldi að lykilsönnunargagn í málinu hafi farið forgörðum. 

Héraðsdómari sagði meðal annars að vegna annmarka á lögreglurannsókn bæri að skýra allan vafa ákærða í hag. Hann var því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og íslenskra ríkinu bar að greiða manninum 418.500 krónur í málsvarnarlaun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×