Körfubolti

Dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að myrða NBA-leikmann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lorenzen Wright (með boltann) í leik með Memphis Grizzlies.
Lorenzen Wright (með boltann) í leik með Memphis Grizzlies. getty/Andy Lyons

Maður frá Tennesse var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að myrða Lorenzen Wright, fyrrverandi leikmann í NBA-deildinni í körfubolta, fyrir tólf árum.

Kviðdómur fann Billy Ray Turner sekan um morð af fyrstu gráðu. Hann var í kjölfarið dæmdur í ævilangt fangelsi.

Sundurskotið lík Wrights fannst í mýrlendi í austur Memphis 28. júlí 2010. Hans hafði þá verið saknað í fjóra daga. Wright var 34 ára og lét eftir sig sex börn.

Fyrir þremur árum játaði fyrrverandi eiginkona Wright, Sherra, að hafa skipulagt morðið á honum. Hún var dæmd í þrjátíu ára fangelsi. Sherra og Turner voru fyrst ákærð fyrir morðið á Wright 2017.

Wright lék með fimm félögum í NBA á árunum 1996-2009: Los Angeles Clippers, Atlanta Hawks, Memphis Grizzlies, Sacramento Kings og Cleveland Cavaliers. Hann var með 8,0 stig og 6,4 fráköst að meðaltali í leik í NBA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×