Körfubolti

Systkini bikarmeistarar og valin best með tveggja klukkutíma millibili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbrún María Ármannsdóttir og Ásmundur Múli Ármannsson með verðlaun sín sem mikilvægustu leikmenn úrslitaleikjanna.
Kolbrún María Ármannsdóttir og Ásmundur Múli Ármannsson með verðlaun sín sem mikilvægustu leikmenn úrslitaleikjanna. KKÍ/Bára Dröfn

Stjarnan var lið helgarinnar í bikarkeppnum körfuboltans því alls unnu flokkar félagsins fimm bikarmeistaratitla af þeim níu sem voru í boði.

Stjarnan varð ekki aðeins bikarmeistari í meistaraflokki karla heldur einnig í 9. flokki karla, 9. flokki kvenna, 10. flokki karla og 10. flokki kvenna.

Þrír af þessum bikartitlum unnust á laugardaginn þar voru sterk fjölskyldutengsl í gangi.

Systkinin Kolbrún María Ármannsdóttir og Ásmundur Múli Ármannsson unnu þá með sínum flokkum og faðir þeirra Ármann Múli Karlsson var liðstjóri karlaliðsins sem vann einnig bikarinn þennan sama dag.

Það má heldur ekki gleyma að móðir þeirra, Stefanía Helga Ásmundsdóttir, varð Íslandsmeistari með Grindavík árið 1997, en varð síðan að leggja skóna snemma á hilluna.

Það var ekki nóg með að hin fjórtán ára gamla Kolbrún María og hinn fimmtán ára gamli Ásmundur Múli hafi orðið bikarmeistarar með tveggja klukkutíma millibili því þau voru líka bæði kosin best í úrslitaleikjum sínum.

Kolbrún María var með 18 stig, 15 fráköst, 4 varin skot og 4 stoðsendingar á 29 mínútum þegar 9. flokkur Stjörnunnar vann 60-37 sigur á Keflavík í bikarúrslitaleiknum.

Ásmundur Múli var með 24 stig, 11 fráköst og 4 stoðsendingar á 25 mínútum þegar 10. flokkur Stjörnunnar vann 59-55 sigur á KR í bikarúrslitaleiknum.

Kolbrún María varð síðan einnig bikarmeistari með 10. flokki kvenna daginn eftir og hafði auk þess fengið silfur í bikarkeppni stúlknaflokks á föstudagskvöldinu.

  • Bikarmeistarar helgarinnar hjá KKÍ
  • Meistaraflokkur karla: Stjarnan
  • Meistaraflokkur kvenna: Haukar
  • Unglingaflokkur karla: KR
  • Drengjaflokkur: Fjölnir
  • Stúlknaflokkur: Fjölnir
  • 10. flokkur karla: Stjarnan
  • 10. flokkur kvenna: Stjarnan
  • 9. flokkur karla: Stjarnan
  • 9. flokkur kvenna: Stjarnan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×