Innlent

Þyrlan sótti skip­verja sem féll fyrir borð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þyrla gæslunnar sótti manninn og flutti á Landspítala.
Þyrla gæslunnar sótti manninn og flutti á Landspítala. Vísir/Vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á níunda tímanum í kvöld eftir að skipverji á íslensku loðnuveiðiskipi rétt fyrir utan Reykjanestá hafði fallið fyrir borð.

Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við fréttastofu. Hann segir að þegar tilkynningin barst hafi þyrlusveit gæslunnar verið kölluð út, sem og sjóbjörgunarsveitir á Suðurnesjum.

Skipverjum færeysks loðnuveiðiskips sem var í nágrenninu hafi tekist að koma björgunarhrings til mannsins skömmu eftir að hann lenti í sjónum. Skipverjar íslenska skipsins hafi brugðist fljótt við og komist til mannsins á léttbát, og komið honum síðan aftur um borð í skipið.

Því hafi viðbragð sjóbjörgunarsveita verið afturkallað en þyrlan flutti manninn síðan á Landspítala og var nýlent upp úr klukkan tíu í kvöld, þegar fréttastofa ræddi við Ásgeir.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni slasaðist maðurinn en er líðan hans þó góð eftir atvikum.

Fréttin var síðast uppfærð kl 22:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×