Enski boltinn

Ánægður eftir „alvöru bikarleik“ í Nottingham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp var sáttur með sigur sinna manna þó hann hefði viljað sjá lið sitt klára leikinn fyrr.
Klopp var sáttur með sigur sinna manna þó hann hefði viljað sjá lið sitt klára leikinn fyrr. Tim Goode/Getty Images

Jürgen Klopp var óhemju ánægður eftir nauman eins marks sigur sinna manna í Liverpool gegn B-deildarliði Nottingham Forest í átta liða úrslitum enska FA-bikarsins í kvöld. Klopp hrósaði Nottingham fyrir að gera þetta að „alvöru bikarleik.“

„Þetta var alvöru bikarleikur. Þetta var smá eins og Evrópuleikur fyrir Nottingham Forest. Ég veit þeir fá ekkert fyrir það en ég vil hrósa þeim. Þeir spiluðu virkilega vel,“ sagði sigurreifur Klopp að leik loknum.

„Þeir börðust og þeir lokuðu svæðum mjög vel. Við hefðum átt að spila betur en þeir gerðu okkur erfitt fyrir. Við hefðum átt að skora úr dauðafærinu sem við fengum en við erum komnir áfram og ég er mjög ánægður með það,“ sagði Klopp að endingu.

Draumar Liverpool um að vinna alla fjóra titlana sem í boði eru lifa enn. Liðið er búið að vinna deildarbikarinn, komið í undanúrslit FA-bikarsins gegn Manchester City, mætir Benfica í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og er að anda ofan í hálsmálið á toppliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×