Arsenal aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bukayo Saka skoraði eina mark leiksins.
Bukayo Saka skoraði eina mark leiksins. Chris Brunskill/Fantasista/Getty Images

Arsenal lét tapið gegn Liverpool í miðri viku ekki slá sig út af laginu og vann mikilvægan 1-0 útisigur gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Fyrir leik dagsins hafði Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, kvartað yfir leikjaniðurröðun ensku úrvalsdeildarinnar, enda aðeins rúmlega tveir og hálfur sólarhringur síðan liðið lék gegn Liverpool.

Þrátt fyrir mögulega þreytu leikmanna Arsenal voru það þeir sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Þar var á ferðinni Bukayo Saka eftir hálftíma leik, en hann nýtti sér klaufagang í varnaleik Aston Villa. Staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimamenn í Aston Villa færðu sig framar á völlinn í síðari hálfleik og fengu nokkur ákjósanleg færi til að jafna leikinn. Inn vildi boltinn þó ekki og niðurstaðan varð 1-0 útisigur Arsenal.

Arsenal situr í fjórða sæti deildarinnar með 54 stig eftir 28 leiki og er í góðri stöðu í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Aston Villa situr hins vegar í níunda sæti með 36 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira