Fótbolti

De Gea fær ekki að mæta Íslandi

Sindri Sverrisson skrifar
David de Gea hefur leikið 45 A-landsleiki fyrir Spán, síðast árið 2020.
David de Gea hefur leikið 45 A-landsleiki fyrir Spán, síðast árið 2020. Getty/James Gill

David de Gea, markvörður Manchester United, fékk ekki sæti í spænska landsliðshópnum sem mætir Íslandi í vináttulandsleik í fótbolta í La Coruña 29. mars.

Luis Enrique, landsliðsþjálfari Spánar, kynnti í dag 23 manna leikmannahóp sem mætir Albaníu og Íslandi í leikjum sem eru liður í undirbúningi Spánverja fyrir HM í Katar í lok ársins.

De Gea hlaut ekki sæti í hópnum en í hans stað kemur David Raya, markvörður Brentford. Markverðirnir Unai Simón og Robert Sánchez eru áfram í hópnum.

Sergio Busquets, miðjumaður Barcelona, er ekki heldur í hópnum en samkvæmt Goal virðist Enrique hafa kosið að veita honum hvíld vegna bakmeiðsla.

Spænski hópurinn sem mætir Íslandi:

Markmenn: Unai Simón, Robert Sánchez, David Raya.

Varnarmenn: Marcos Alonso, Jordi Alba, Laporte, Pau Torres, Eric García, Diego Llorente, Azpilicueta, Carvajal

Miðjumenn: Rodri, Koke, Pedri, Marcos Llorente, Gavi, Carlos Soler

Sóknarmenn: Dani Olmo, Sarabia, Morata, Raúl de Tomás, Ferran Torres, Yeremy Pino.

Áður en að Ísland mætir Spáni leikur íslenska liðið gegn Finnlandi, einnig á Spáni, 26. mars. Íslenski landsliðshópurinn verður kynntur eftir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×