Enski boltinn

Klopp: Allir ættu að leggja nafn Martinelli á minnið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gabriel Martinelli fer framhjá Trent Alexander-Arnold í leiknum á Emirates leikvanginum í gær.
Gabriel Martinelli fer framhjá Trent Alexander-Arnold í leiknum á Emirates leikvanginum í gær. AP/Ian Walton

Einn ungur leikmaður Arsenal fékk mikla lofræðu frá knattspyrnustjóra Liverpool eftir leik Liverpool og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni i gær.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er greinilega mjög hrifinn af hinum tvítuga Brasilíumanni Gabriel Martinelli.

Martinelli skapaði ítrekað vandræði fyrir Liverpool-liðið í gær en Liverpool náði á endanum að vinna sinn níunda deildarleik í röð.

Martinelli fór á kostum á vinstri vængnum í leiknum og Trent Alexander-Arnold átti þannig í miklum vandræðum með hann í leiknum.

Þetta var enn eitt dæmið um að þegar Martinelli kemst á flug þá ræður enginn við hann. Það er ein af ástæðunum fyrir því að Klopp segir að þar sé á ferðinni einstaklega hæfileikaríkur leikmaður, leikmaður sem kemur ekki fram oft á hverri öld.

„Allir ættu að leggja nafn Martinelli á minnið því hann er stórkostlegur leikmaður,“ sagði Jürgen Klopp.

Arsenal stuðningsmenn geta þó alveg andað rólega því strákurinn er með samning til ársins 2024 auk þess að Arsenal hefur möguleika á að framlengja hann um eitt ár.

Martinelli er með 5 mörk og 3 stoðsendingar í 19 deildarleikjum á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×