Fótbolti

Haaland nær samkomulagi við Man City

Atli Arason skrifar
Erling Haaland verður ekki í gulu á næsta tímabili.
Erling Haaland verður ekki í gulu á næsta tímabili. Getty

Breskir og þýskir fjölmiðlar hafa margir verið að greina frá því síðasta sólarhring að Manchester City sé búið að ná samkomulagi við norsku markamaskínuna Erling Braut Haaland.

Það eina sem á eftir að gera er að tilkynna formlega um félagaskiptin.

Samkomulagið hljómar upp á 100 milljónir punda en Haaland er með söluákvæði í samningi sínum hjá Dortmund sem segir að eftir yfirstandandi keppnistímabil verði Dortmund að samþykkja tilboð upp á 63 milljónir punda. Hinar 37 milljónirnar fara svo til Haaland og umboðsmanns hans, Mino Raiola.

Norski framherjinn hefur skorað 16 mörk í 14 leikjum á þessu tímabili í þýsku úrvalsdeildinni. Frá því að hann kom til Dortmund hefur Haaland skorað 80 mörk í 79 leikjum fyrir félagið.

„Okkur bráðvantar framherja,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City fyrir leik liðsins gegn Manchester United um síðustu helgi. City vann leikinn 4-1 en liðið hefur verið án framherja síðan Sergio Aguero fór frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×