Fótbolti

Svekkjandi tap Lyng­by á heima­velli í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sævar Atli spilaði allan leikinn í liði Lyngby.
Sævar Atli spilaði allan leikinn í liði Lyngby. Twitter/@LyngbyBoldklub

Íslendingalið Lyngby mátti þola svekkjandi tap gegn Nykobing í dönsku B-deildinni í kvöld, lokatölur 1-2 gestunum í vil.

Sævar Atli Magnússon var í byrjunarliði Lyngby sem er í harðri baráttu um sæti í dönsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Leikurinn var í járnum framan af en gestirnir tóku forystuna undir lokin, Mathias Johannsen kom boltanum þá í netið og Nykobing var 1-0 yfir í hálfleik.

Magnus Westergaard jafnaði metin fyrir Lyngby þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Virtist sem það yrðu lokatölur en undir lok leiks stálu gestirnir stigunum þremur.

Mathias Kristensen með sigurmarkið þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur 1-2 gestunum í vil. Sævar Atli spilaði allan leikinn í liði Lyngby.

Lyngby er áfram í 2. sæti deildarinnar með 40 stig líkt og Hvidovre IF sem er í 3. sætinu með leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×