Innlent

Bjóða ókeypis aðstoð við verkefni sem fæstir hafa gaman af

Snorri Másson skrifar

Nú fer hver að verða síðastur að skila inn skattframtali - en það er ekkert að óttast, segja laganemar sem leiða gesti og gangandi í gegnum ferlið um helgina.

Lokafrestur: 14. mars. Þetta þýðir að margir munu vilja eða allavega þurfa að horfast í augu við framtalið um helgina - og gert er ráð fyrir margmenni í Háskólanum í Reykjavík á laugardaginn, þar sem laganemar ætla að aðstoða gesti og gangandi með framtalið endurgjaldslaust frá tólf til fjögur.

„Þetta er bara spurning um að setjast niður, fara yfir leiðbeiningarnar á síðu skattsins, leita aðstoðar hjá skattinum eða hjá okkur, og reyna að klára þetta af sem allra fyrst,“ segir Sigurður Stefán Bjarnason, framkvæmdastjóri lögfræðiþjónustu Lögréttu, sem er félag laganema.

Í flestum tilvikum er þetta einfalt, en þegar fólk er sjálfstætt starfandi eða fær umtalsverðar verktakagreiðslur, er vísast að leita til sérfræðinga.

„Við myndum alltaf mæla með að fólk komi til okkar, leiti til sérfræðinga eða tali við skattinn, ef það er einhver óvissa með skil á framtalinu,“ segir Sigurður Stefán.

Framtalið er nógu flókið fyrir Íslendinga á íslensku, svo ekki sé talað um fólk sem talar ekki tungumálið.

„Framtalið eins og það er á síðu skattsins er einungis á íslensku þótt leiðbeiningar sé að finna á fleiri tungumálum. Þannig að það er helsta björgin sem við getum veitt, að aðstoða fólk sem hefur ekki skilað framtali á íslensku áður,“ segir Sigurður Stefán.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×