Íslenski boltinn

Rikki stóð í snjónum sem má „alls ekki“ vera í borginni eftir tvær vikur

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik og KR eiga að mætast á grasinu á Meistaravöllum 25. apríl. Völlurinn var snævi þakinn þegar Rikki G kom við þar í gær.
Breiðablik og KR eiga að mætast á grasinu á Meistaravöllum 25. apríl. Völlurinn var snævi þakinn þegar Rikki G kom við þar í gær. VÍSIR/HULDA MARGRÉT og Skjáskot

Rigningin á höfuðborgarsvæðinu í dag er vatn á myllu þeirra sem telja að hægt verði að spila á grasvöllum þegar Íslandsmótið í fótbolta hefst í næsta mánuði.

Ríkharð Óskar Guðnason ræddi við vallarstjóra KR, Magnús Val Böðvarsson, á heimavelli KR-inga í gær, í þykku lagi af snjó á vellinum. 

KR-ingar eiga fyrsta heimaleik sinn í Bestu deild karla þann 25. apríl, gegn Breiðabliki, og þá þarf Magnús að vera búinn að gera grasið á Meistaravöllum klárt en til þess þarf mildi veðurguðanna:

„Ég er almennt bjartsýnn að eðlisfari og þar með bjartsýnn á að það geti gerst en við verðum að fá rigningu og losna við þennan snjó til að við getum gert eitthvað,“ sagði Magnús í Sportpakkanum í gær. Bleytan í dag hjálpar því til.

Magnús telur vænlegast að bíða þess einfaldlega að snjórinn fari:

„Við erum ekki að fara að koma með einhverjar vélar til að fjarlægja snjóinn. Ég held að það væri kannski mögulegt að bræða snjóinn með einhverjum hætti en annars held ég að það sé bara skaðlegra að koma með vélar inn á til að reyna að bræða þetta,“ sagði Magnús.

Magnúsi og öðrum vallarstjórum er ekki gert auðvelt fyrir þegar Íslandsmótið hefst sífellt fyrr á vorin og veður þarf að vera hagstætt:

„Ég man ekki eftir svona snjóþungum vetri bara síðan ég var barn,“ sagði Magnús sem hefur marga fjöruna sopið sem vallarstjóri. Hann segir ljóst að snjórinn þurfi að hverfa sem fyrst og snjókomu vetrarins að ljúka: „Alls ekki seinna en á næstu tveimur vikum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×