Innlent

Land­helgis­gæslan sótti al­var­lega slasaðan sjó­mann

Smári Jökull Jónsson skrifar
Áhöfn Þórs aðstoðaði skipverja við að ná nótinni aftur um borð.
Áhöfn Þórs aðstoðaði skipverja við að ná nótinni aftur um borð. Landhelgisgæslan

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í gærkvöldi til að sækja sjómann sem slasast hafði alvarlega um borð í íslensku fiskiskipi. Skipverjinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.

Það var á sjötta tímanum í gær sem haft var samband við Landhelgisgæsluna vegna skips sem statt var 25 sjómílur norðvestur af Kópanesi. Snurpuvír hafði slitnað og einn skipverji slasast. Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, var þyrla gæslunnar TF-GRO kölluð út með mesta forgangi.

„Þetta var þess eðlis að þyrlan var kölluð út með mesta forgangi. Meiðsli þess slasaða voru alvarleg,“ sagði Ásgeir en gat ekki gefið frekari upplýsingar um líðan þess slasaða.

Skipverjinn var hífður um borð í þyrluna á áttunda tímanum og fluttur beint á sjúkrahús.

Auk þess sem skipverji slasaðist hafði skiptið misst nótina. Varðskipið Þór, sem var í grenndinni, var kallað út til að aðstoða við að ná nótinni um borð á nýjan leik. Það gekk ekki og nótin var tekin um borð í varðskipið.

Ásgeir segir aðgerðir á staðnum hafa gengið vel.

„Hífingar gengu vel og maðurinn var strax í kjölfarið fluttur beint á Landspítalann í Fossvogi. Aðgerðir varðskipsins gengu líka mjög vel. Þeir byrjuðu í gærkvöldi en þeim lauk svo seinni partinn í gær þegar nótin var komin í land á Ísafirði,“ sagði Ásgeir í sambandi við fréttastofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×