Viðskipti innlent

Herdís tekur sæti Katrínar í peningastefnunefnd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Herdís Steingrímsdóttir tekur sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Herdís Steingrímsdóttir tekur sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. SAMSETT

Herdís Steingrímsdóttir, dósent í hagfræði við Copenhagen Business School, hefur verið skipuð í peningastefnunefnd Seðlabankans til næstu fimm ára. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Herdís tekur sæti Katrínar Ólafsdóttur sem setið hefur í peningastefnunefnd í 10 ár sem er hámarksskipunartími í nefndinni.

Herdís er með doktorspróf í hagfræði frá Columbia háskólanum í New York og meistarapróf í stærðfræðilegri hagfræði og hagrannsóknum frá London School of Economics. Rannsóknir Herdísar snúa að vinnumarkaðshagfræði og hefur hún hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín á þeim vettvangi. Þá er Herdís meðlimur og umsjónarmaður ýmissa rannsóknasetra í Kaupmannahöfn sem greina hagfræðileg úrlausnarefni er varða lífeyrismál, ójöfnuð, hagfræði heimilanna og fleira.

Peningastefnunefnd tekur ákvarðanir um beitingu stjórntækja Seðlabankans í peningamálum. Stjórntæki bankans í þessu sambandi eru vextir bankans, viðskipti við lánastofnanir og önnur þrautavaralán, ákvarðanir um bindiskyldu og viðskipti á gjaldeyrismarkaði sem hafa það markmið að hafa áhrif á gengi krónunnar.

Frá upphafi árs 2020 sitja í peningastefnunefnd Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir staðgengill formanns, Gunnar Jakobsson, Katrín Ólafsdóttir og Gylfi Zoëga. Herdís tekur nú sæti Katrínar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×