Fótbolti

Léku með táknræn armbönd í leiknum á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Catarina Macario í baráttu um boltann við íslenska landsliðsfyrirliðann Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.
Catarina Macario í baráttu um boltann við íslenska landsliðsfyrirliðann Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur. Getty/Brad Smith

Bandarísku landsliðskonurnar voru í miklu stuði á móti þeim íslensku í úrslitaleik SheBelieves Cup en þær notuð líka tækifærið til að senda mikilvæg skilaboð.

Margir leikmenn bandaríska liðsins léku með heimatilbúin armbönd með áletruninni „Protect Trans Kids“ eða „Pössum upp á transbörnin okkar“ á íslensku.

Leikurinn fór fram í Dallas í Texas og þessi stuðningur eru viðbrögð við framgöngu Greg Abbott, fylkisstjóra Texas.

Greg Abbott sendi bréf til allra starfsmanna sem sjá um barnaverndarmál í fylkinu og þar kom fram að það væri skylda þeirra að segja yfirvöldum frá transbörnum og foreldrum svo að þau gæti verið rannsökuð fyrir barnaofbeldi.

Catarina Macario, sem skoraði tvö mörk í leiknum, sýndi armbandið sitt þegar hún fagnað seinna marki sínu í leiknum.

„Við vildum nýta sviðið sem við höfum til að sýna að þetta lið er öðruvísi og við erum líka að berjast fyrir hlutum sem eru mikilvægari en íþróttin okkar,“ sagði Catarina Macario við blaðamenn eftir leikinn.

„Þetta var okkar leið til að gera fólki grein fyrir hvað sé í gangi ekki síst þar sem við vorum að spila í Texas. Ég vildi passa upp á það að allir sæju þetta og þetta var ekki eitthvað sem væri hægt að sópa undir teppið,“ sagði Macario.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×