Sport

Anníe Mist að leggja í hann í tólfta sinn: The Open verður skemmtilegt í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir með þeim Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Lauren Fisher.
Anníe Mist Þórisdóttir með þeim Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Lauren Fisher. Instagram/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir ætlar að hafa gaman á The Open sem hófst í gær með 22.1 en með opna hluta heimsleikanna byrjar nýtt keppnistímabil hjá CrossFit-fólkinu.

Anníe Mist er náttúrulega orðin mikill reynslubolti í faginu en þetta verður í tólfta sinn sem hún tekur þátt í The Open.

Anníe Mist varð þriðja á heimsleikunum í fyrra en ætlar að taka þátt í liðakeppni heimsleikanna í ár.

Hún fær nú í fyrsta sinn í langan tíma að taka The Open æfingarnar með góðri vinkonu sinni Katrínu Tönju Davíðsdóttur sem er nú komin heim til Íslands.

Það lá vel á Anníe Mist, Katrínu Tönju og Lauren Fisher þegar þær stilltu sér upp í aðdraganda fyrstu viku The Open. Fisher verður einmitt í liði Anníe á heimsleikunum í ár.

Það er mikill hugur í Anníe eins og mátti lesa í pistil hennar í upphafi tímabilsins.

„Fjandakornið hvað The Open verður skemmtilegt í ár. Ég er svo spennt að vera leggja í hann með þennan ótrúlega góða hóp mér við hlið,“ skrifaði Anníe Mist.

Anníe Mist kemur með góð ráð til þeirra sem eru að íhuga að vera með í ár.

„Það skiptir ekki máli hvað þú gerðir í fyrra. Þú þarft ekki að gera samanburð en þetta er svo skemmtileg leið til að drífa þig áfram og komast að því hvar þú er í dag og hjálpar þér að setja markmið fyrir komandi mánuði,“ skrifaði Anníe.

„Þetta er líka skemmtileg leið til að ýta á eftir vinunum og hvetja þá áfram,“ skrifaði Anníe.

„Ég elska The Open en ekki út af æfingunum heldur af því að það vera allir svo spenntir. Ef þér líður vel og ert klár í það af hverju ekki að gera æfinguna aftur þremur dögum síðar. Það er ekki oft sem við getum gert æfingarnar okkar aftur en þegar þú gerir það þá nærðu næstum því alltaf að bæta þig,“ skrifaði Anníe.

Það má sjá pistil hennar hér fyrir ofan og hér fyrir neðan má síðan sjá æfinguna í 22.1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×