Íslenski boltinn

Svona var kynningarfundur ÍTF | Nýtt nafn, nýr bikar og nýir styrktaraðilar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valskonur unnu Pepsi Max-deild kvenna í fyrra. Tekst þeim að vinna Bestu deildina í sumar?
Valskonur unnu Pepsi Max-deild kvenna í fyrra. Tekst þeim að vinna Bestu deildina í sumar?

Frá og með næsta tímabili munu efstu deildir karla og kvenna bera nafnið Besta deildin. Þetta kom fram á kynningarfundi Íslensks toppfótbolta (ÍTF) í Bæjarbíói í dag.

Fundurinn hófst klukkan 11:30. Útsendingu frá honum má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Á síðasta ári ákvað ÍTF að hætta að selja nafnarétt efstu deildar heldur byggja upp eigið vörumerki eins og gert hefur verið í mörgum löndum Evrópu undanfarin ár.

Auk þess að kynna nýtt nafn á efstu deild voru nýir styrktaraðilar og nýr verðlaunagripur kynntur á fundinum í dag.

Ölgerðin var aðalstyrktaraðili efstu deildar á árunum 2009-21 en nú verður deildin með þrjá styrktaraðila: Eitt sett, Steypustöðina og Lengjuna.

Þá verður keppt um skjöld frá og með næsta tímabili en ekki bikar. Merki Bestu deildarinnar verður á skildinum og nöfn allra Íslandsmeistara frá upphafi verða grafin í hann. Nýjum meisturum verður síðan bætt jafnóðum við.

Nýja vörumerkið er byggt á merki sem var grafið í fyrsta bikar Íslandsmótsins frá 1912. Í honum var merki, mynd af Íslandi og fálka umvafið lárviðarkransi. Merki Bestu deildarinnar sækir innblástur sinn í fálkann og fimm slíkir eru í merki hennar. 

Keppni í Bestu deild karla hefst 18. apríl með leik Íslandsmeistara Víkings og FH. Besta deild kvenna hefst með tveimur leikjum 26. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×