Enski boltinn

Mitrovic búinn að bæta markametið strax í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksandar Mitrovic fagnar hér öðru marka sinna með Fulham í gær.
Aleksandar Mitrovic fagnar hér öðru marka sinna með Fulham í gær. Getty/Alex Davidson

Serbinn Aleksandar Mitrovic skoraði tvívegis í 2-1 sigri Fulham á Peterborough United í ensku b-deildinni í gærkvöldi.

Það þýðir að Mitrovic er kominn með 33 mörk í deildinni á þessu tímabili sem er nýtt met.

Gamla metið átti Ivan Toney síðan hann skoraði 31 mark fyrir Brentford á síðustu leiktíð.

Fulham er með níu stiga forystu á toppi ensku b-deildarinnar og Mitrovic er með þrettán mörkum meira en næsti maður á markalistanum.

Mitrovic hefur skorað þessi 33 mörk í 30 leikjum en ellefu af þessum mörkum hafa komið í fyrstu átta leikjum Fulham á árinu 2022.

Það að serbneski framherjinn er þegar búinn að slá markametið í febrúar bendir til þess að hann eigi eftir að setja met sem erfitt verður að slá. Fulham á eftir að spila fjórtán leiki á tímabilinu.

Mitrovic skoraði aðeins 3 mörk í 27 leikjum í ensku úrvalsdeildinni í fyrra og Fulham féll niður í b-deildina. Hann var hins vegar með 26 mörk í 40 leikjum í b-deildinni tímabilið á undan.

Mitrovic hefur alls spilað 112 leiki í ensku b-deildinni á þessu tímabili og skorað í þeim 75 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×