Innlent

Fann­ey Rós skipuð ríkis­lög­maður fyrst kvenna

Eiður Þór Árnason skrifar
Fanney Rós hefur yfirgripsmikla reynslu af málflutningi á öllum dómstigum.
Fanney Rós hefur yfirgripsmikla reynslu af málflutningi á öllum dómstigum. Aðsend

Forsætisráðherra hefur skipað Fanneyju Rós Þorsteinsdóttur ríkislögmann frá og með 28. febrúar næstkomandi. Hún er fyrsta konan sem skipuð er í embætti ríkislögmanns.

Fram kemur í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu að tveir hafi sótt um embættið og fól forsætisráðherra ráðgefandi hæfnisnefnd að leggja mat á hæfni þeirra. Annar umsækjandinn dró umsókn sína til baka áður en nefndin tók til starfa. Í mati hæfnisnefndar er Fanney Rós talin uppfylla öll hæfis- og hæfnisskilyrði. Hinn umsækjandinn var Þór­hall­ur Hauk­ur Þor­valds­son hæsta­rétt­ar­lögmaður.

Einar Karl Hallvarðsson, fráfarandi ríkislögmaður, var í desember skipaður í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Suðurlands frá 28. febrúar næstkomandi.

Starfað hjá embætti ríkislögmanns

Fanney Rós lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands í júní 2005 og framhaldsnámi (LLM) við Columbia-háskóla 2012, að því er fram kemur í tilkynningunni. Hún hefur starfað hjá embætti ríkislögmanns frá árinu 2012 en áður var hún aðstoðarmaður hæstaréttardómara, fulltrúi hjá Mörkinni lögmannsstofu og ritari kærunefndar útboðsmála. Þá var hún um skeið stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Fanney Rós hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi 2006 og fyrir Hæstarétti 2014.

Að sögn forsætisráðuneytisins hefur Fanney Rós fjölbreytta og yfirgripsmikla reynslu af málflutningi á öllum dómstigum auk þess sem hún hafi flutt mörg mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.


Tengdar fréttir

Tvö sóttu um em­bætti ríkis­lög­manns

Forsætisráðuneytinu bárust tvær umsóknir um embætti ríkislögmanns en umsóknarfrestur rann út 15. janúar. Umsækjendur voru Fanney Rós Þorsteinsdóttir, lögmaður hjá embætti ríkislögmanns, og Þórhallur Haukur Þorvaldsson hæstaréttarlögmaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×