Fótbolti

Eigendur félags Alberts halda áfram að versla og setja met í Brasilíu

Sindri Sverrisson skrifar
Vasco da Gama féll úr efstu deild Brasilíu fyrir tæpum tveimur árum.
Vasco da Gama féll úr efstu deild Brasilíu fyrir tæpum tveimur árum. Getty/Bruna Prado

Bandaríska fjárfestingafyrirtækið 777 Partners heldur áfram að færa út kvíarnar í íþróttaheiminum og hefur nú samið um kaup á hinu fornfræga, brasilíska knattspyrnufélagi Vasco da Gama.

777 festi í september kaup á ítalska félaginu Genoa og mun kaupverðið hafa numið 150 milljónum Bandaríkjadala, eða tæplega 19 milljörðum króna.

Genoa gat svo gert sig gildandi á félagaskiptamarkaðnum í janúar og krækti meðal annars í Albert Guðmundsson frá AZ Alkmaar á síðustu stundu.

Nú hefur 777 samið um kaup á 70% hlut í Vasco da Gama fyrir 137 milljónir Bandaríkjadala, eða 17 milljarða króna, auk þess sem 777 tekur yfir skuldir félagsins. Um er að ræða stærsta kaupsamning í sögu brasilíska fótboltans, samkvæmt frétt Sports Pro Media.

Vasco leikur nú í næstefstu deild Brasilíu en félagið stóð á sínum hátindi í lok síðustu aldar og hefur alls fjórum sinnum orðið brasilískur meistari.

Auk þess að eiga nú félag á Ítalíu og bráðum, ef að líkum lætur, í Brasilíu á 777 hlut í spænska félaginu Sevilla og þá hefur fyrirtækið verið orðað við kaup á franska félaginu Saint-Étienne.

Þar að auki festi 777 kaup á 45% hlut í bresku körfuboltadeildinni í desember fyrir 9,5 milljónir Bandaríkjadala, eða 1,2 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×