Innlent

Já­eindaskanninn bilaði á einkar ó­heppi­legum tíma

Eiður Þór Árnason skrifar
Jáeindaskanninn var tekinn í notkun í desember 2018.
Jáeindaskanninn var tekinn í notkun í desember 2018. Landspítali

Bilun kom upp í jáeindaskanna Landspítalans 15. febrúar og er von á því að hann komist aftur í notkun á föstudag. Þurft hefur að fresta rannsóknum á rúmlega tuttugu sjúklingum vegna þessa.

Bilunin sjálf stóð yfir í þrjá daga, eða þar til til varahlutur kom til landsins, en hlé á framleiðslu geislavirkra sporefna sem kom beint í kjölfarið tafði gangsetningu. Framleiðslustöðvunin hafði verið skipulögð með miklum fyrirvara til að viðhalda ströngu gæðaeftirliti.

Steinunn Erla Thorlacius, deildarstjóri röntgendeildar Landspítalans, segir að bilunin hafi komið á einstaklega óheppilegum tíma. 

„Þetta þarf að haldast í hendur við þessa lyfjaframleiðslu sem fylgir jáeindaskannanum. Við framleiðum geislavirkt sporefni sem er sprautað í sjúklinginn í gegnum æðakerfið. Lyfið hefur ákveðinn helmingunartíma svo við höfum bara vissan ramma til að keyra rannsóknirnar með þessu geislavirka lyfi þar sem virknin dugar bara í vissan tíma,“ segir Steinunn.

Gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu

Steinunn segir til skoðunar hvort hægt sé að bæta við rannsóknum og keyra tækið lengur yfir daginn til að vinna á biðlistanum. Í ljósi þess hvað bilunin varði í stuttan tíma er ekki talið að stöðvunin hafi mikil áhrif á meðferð sjúklinga.

„Við viljum veita þessum sjúklingahópi sem besta þjónustu og erum að forgangsraða beiðnunum eftir bráðleika,“ bætir hún við.

Jáeindaskanninn var tekinn í notkun í desember 2018 og var gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu. Skanninn gefur til dæmis mjög nákvæmar upplýsingar um staðsetningu og dreifingu krabbameina.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×