Sport

Fertug og sló heimsmetið í hundrað mílu hlaupi kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camille Herron er enn að slá heimsmet á fimmtugsaldri.
Camille Herron er enn að slá heimsmet á fimmtugsaldri. Instagram/@runcamille

Bandaríska ofurhlaupadrottningin Camille Herron setti nýtt heimsmet á dögunum þegar hún hljóp hundrað mílurnar á 12 klukkutímum, 42 mínútur og 40 sekúndum.

Hundrað mílur er tæpur 161 kílómetri eða lengra en að hlaupa frá Reykjavík að Skógafossi undir Eyjafjöllum. Herron setti líka annað met með því að ná að hlaupa 152 kílómetra á innan við tólf klukkutímum en gamla metið var 149 kílómetrar og var það líka í eigu hennar.

Herron hélt upp á fertugsafmælið sitt á Jóladag og það er magnað að hún sé enn að bæta heimsmet á þessum aldri.

Herron vann yfirburðasigur í Jackpot Ultras hlaupinu í Nevada en næst á eftir henni var Arlen Glick sem kom í mark um hálftíma á eftir henni.

Það besta við þetta afrek hennar er að Herron átti mjög erfitt ár 2020 og það var eins og aldurinn væri að ná í skottið á henni. Hún kom hins vegar sterk til baka, varð í fjórða sæti í þessu hlaupi í fyrra og vann það síðan með yfirburðum á nýju heimsmeti í ár.

Þessi tími Herron þýðir að hún er að hlaupa hvern kílómetra á fjórum mínútum og 44 sekúndum og hún var að gera það rúman hálfan sólarhring samfellt. Magnað afrek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×