Innlent

Sveitar­fé­lög rekin með 6,4 milljarða halla á árinu

Atli Ísleifsson skrifar
Af þeim 67 sveitarfélögum sem samantektin náði til reikna 32 þeirra með rekstrarhalla á árinu 2022 en 35 með afgangi.
Af þeim 67 sveitarfélögum sem samantektin náði til reikna 32 þeirra með rekstrarhalla á árinu 2022 en 35 með afgangi. Vísir/Vilhelm

Samantekt sem nær til 67 sveitarfélaga, þar sem í búa 99,9 prósent landsmanna, sýnir að þau verði rekin með 6,4 milljarða halla á yfirstandandi ári, eða sem nemur 1,5 prósent af tekjum.

Útkomuspár benda sömuleiðis til að rekstrarhalli hafi numið þrjú prósent af tekjum á síðasta ári, en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir halla upp á 5,8 prósent.

Frá þessu segir í nýrri samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nær til til A-hluta sveitarfélaga, það er þeirrar starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum.

35 gera ráð fyrir afgangi

Á heimasíðu sambandsins má sjá að af þessum 67 sveitarfélögum reikna 32 þeirra með rekstrarhalla á árinu 2022 en 35 með afgangi. Til samanburðar sýnir útkomuspá að 27 sveitarfélög voru rekin með afgangi og 42 með halla árið 2021.

Gert er ráð fyrir að skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga verði 493 milljarðar króna í árslok 2022 sem er 117 prósent af áætluðum tekjum. Skuldahlutfallið hafi farið hækkandi undanfarin ár, verið 103 prósent árið 2017 og bendir útkomuspá til að það hafi verið 115 prósent árið 2021.

Launatengd gjöld hækka

Einnig segir að launatengd gjöld hafi hækkað umtalsvert umfram hækkun tekna sveitarfélaga.

„Fyrir 10 árum síðan, árið 2012, námu launa og tengd gjöld réttum helmingi af tekjum. Samkvæmt fjárhagsáætlunum fyrir 2022 er gert ráð fyrir að hlutfallið verði 57%, en í útkomuspá fyrir 2021 er reiknað með 58,4%.

Samkvæmt fjárhagsáætlunum er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri muni nema um 4% af tekjum, sem bera má saman við útkomuspá 2021 sem sýnir veltufé upp á 2,7% af tekjum.

Áætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að þau muni verja tæplega 70 ma.kr. til fjárfestinga árið 2022 sem er 16,5% af tekjum. Það er nokkur hækkun frá útkomuspá fyrir 2021 sem bendir til að sveitarfélög hafi varið um 15% af tekjum til fjárfestinga.

Til að fjármagna fjárfestingar gera sveitarfélögin ráð fyrir að taka ný langtímalán í ár sem nemur 55 ma.kr. Á móti verða afborganir langtímalána um 19 ma.kr.,“ segir í samantektinni, en nánar má lesa um hana á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×