Körfubolti

ESPN raðaði þeim 75 bestu upp í röð frá 1 til 76: Níu betri en Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það fór vel á með þeim Michael Jordan og LeBron James þegar þeir hittust á Stjörnuleikshelginni.
Það fór vel á með þeim Michael Jordan og LeBron James þegar þeir hittust á Stjörnuleikshelginni. AP/Ron Schwane

Í tilefni af 75 ára afmæli NBA deildarinnar þá valdi deildin 75 bestu leikmenn allra tíma. Þeim var ekki raðað í röð en ESPN bætti úr því í tilefni af Stjörnuleikshelginni.

Reyndar voru 76 leikmenn í hópi þeirra 75 bestu því tveir leikmenn voru jafnir í 75. sætinu í kosningu NBA-deildarinnar.

Það kemur kannski ekki mörgum á óvart að Michael Jordan hafi verið í fyrsta sætinu en kannski eru fleiri hissa á því að LeBron James sé númer tvö.

Það eru síðan sjö leikmenn til viðbótar fyrir ofan Kobe Bryant sem er síðasti maðurinn á topp tíu listanum.

Kareem Abdul-Jabbar er í þriðja sætinu og eftir honum eru menn sem urðu líka meistarar með Los Angeles Lakers eða þeir Magic Johnson (4. sæti) og Wilt Chamberlain (5. sæti). Bill Russell er sjötti og á undan Larry Bird en í áttunda sæti er síðan Tim Duncan. Oscar Robertson er síðan síðasti maðurinn á undan Kobe.

Næstu á eftir Kobe Bryant er gamli liðsfélagi hans, Shaquille O'Neal, en þeir unnu þrjá meistaratitla saman. Kevin Durant er síðan tólfti á listanum og þar með á undan mönnum eins og Hakeem Olajuwon, Julius Erving, Moses Malone og Stephen Curry. Síðustu mennirnir inn á topp tuttugu listann eru síðan þeir Dirk Nowitzki, Giannis Antetokounmpo, Jerry West og Elgin Baylor.

Kevin Garnett (21. sæti) og Charles Barkley (22. sæti) rétt missa af topp tuttugu listanum og liðsfélagarnir Karl Malone og John Stockton eru síðan í næstu sætum á eftir þeim.

Chris Paul og Dwyane Wade komast inn á topp þrjátíu en Allen Iverson ekki. Scottie Pippen er í 32. sætinu á milli þeirra Iverson (31. sæti) og Kawhi Leonard (33. sæti).

Hér má sjá allan listann með stuttu yfirliti yfir feril hvers og eins á topplistanum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×