Fótbolti

Mourinho gæti fengið þriggja leikja bann fyrir símamerkið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jose Mourinho tekur upp símann.
Jose Mourinho tekur upp símann. getty/Matteo Ciambelli

José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, gæti átt yfir höfði sér allt að þriggja leikja bann fyrir framkomu sína í leiknum gegn Verona í ítölsku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Mourinho mótmælti kröftuglega í uppbótartíma. Hann benti meðal annars á höfuðið á sér og gerði eins konar símamerki með höndinni og beindi því að dómaranum Luca Pairetto. Þá tók hann boltann upp og sparkaði honum lengst í burtu. Fyrir þetta var Mourinho rekinn af velli.

Með símamerkinu vísaði Mourinho til föðurs Pairetto, Pierluigi, sem var einnig dómari og dæmdi meðal annars úrslitaleik EM 1996. Hann var dæmdur í Calciopoli skandalnum 2006 en á þeim tíma var hann varaformaður dómaranefndar UEFA.

Lögreglan komst á snoðir um spillingu við niðurröðun dómara á leiki með því að hlera síma háttsettra manna innan ítalska boltans. Pierluigi Pairetto átti til að mynda í reglulegum samskiptum við Luciano Moggi, framkvæmdastjóra Juventus, um niðurröðun á leiki liðsins í Meistaradeild Evrópu. Pierluigi Pairetto fékk 42 mánaða bann frá fótbolta og sextán mánaða fangelsisdóm fyrir aðkomu sína að Calciopoli skandalnum en var seinna sýknaður.

Þá á Mourinho að hafa sagt við Luca Pairetto að Juventus hafi sent hann vísvitandi á leikinn. Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að portúgalski stjórinn gæti fengið tveggja til þriggja leikja bann fyrir mótmæli sín í leiknum í fyrradag.

Roma lenti 0-2 undir í leiknum en mörk frá tveimur ungum varamönnum, Cristian Volpato og Edoardo Bove, tryggðu liðinu stig. Þetta var þriðja jafntefli Rómverja í röð. Þeir eru í 8. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Mourinho tók við Roma fyrir tímabilið. Hann sneri þar með aftur til Ítalíu en hann stýrði Inter með frábærum árangri á árunum 2008-10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×