Enski boltinn

Roy Keane hefur ekki áhyggjur af Man Utd eftir gærdaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba og Jesse Lingard fara fyrir fögnuði leikmanna Manchester United eftir sigurinn á Leeds í gær.
Paul Pogba og Jesse Lingard fara fyrir fögnuði leikmanna Manchester United eftir sigurinn á Leeds í gær. AP/Jon Super

Roy Keane, fyrrum fyrirliði Manchester United, hefur verið óhræddur við að gagnrýna sitt gamla félag í starfi sínu sem fótboltasérfræðingur í sjónvarpi en hann var frekar jákvæður eftir sigur United á Leeds í gær.

Keane er sannfærður um að Manchester United liðið nái fjórða sætinu og verði því með í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

„Ég held að United verði ekki í miklum vandræðum með að ná fjórða sætinu,“ sagði Roy Keane á Sky Sports eftir 4-2 sigur Manchester United á Leeds á Elland Road.

„Það hefur verið mikið um fréttir af leikmönnum sem vilja losna frá félaginu eins og þeir (Paul) Pogba og Jesse Lingard en þeir þurfa bara að einbeita sér að næstu mánuðum sem eru mikilvægir fyrir klúbbinn,“ sagði Keane.

Eftir sigurinn í gær þá er Manchester United liðið fjórum stigum á undan West Ham og Arsenal sem eru í fimmta og sjötta sætinu. Arsenal á samt þrjá leiki inni á United.

„Þeir verða að reyna að ná þessu fjórða sæti og svo er stór Evrópuleikur fram undan. Einbeitið ykkur að því og ykkar leikjum,“ sagði Keane.

„Í framhaldinu geta menn svo náð vopnum sínum í sumar með því fá inn nýja stjóra og styrkja liðið. Þeir þurfa að halda höfði sínu hátt, halda einbeitingu og sýna gæðin sem þeir sýndu í dag. Ef það tekst þá ættu þeir að vera í lagi,“ sagði Keane.

Það má sjá karlinn í essinu sínu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×