Innlent

Slagsmálahundur neitaði að segja til nafns

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla var þrisvar kölluð út vegna slagsmála og líkamsárásar.
Lögregla var þrisvar kölluð út vegna slagsmála og líkamsárásar. Vísir/Vilhelm

Lögreglu bárust tvær tilkynningar um slagsmál í miðbænum á sama tíma í gærkvöldi, rétt fyrir miðnætti. Í öðru tilvikinu voru allir á brott þegar lögregla kom á staðinn en í hinu var einn handtekinn. Sá vildi ekki segja til nafns og var vistaður í fangageymslu.

Seinna um nóttina, um klukkan 2, barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í Vesturbænum en ekkert meira stendur um atvikið í dagbók lögreglu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var einnig kölluð til fyrr um kvöldið þegar einstaklingur féll í jörðina í Mosfellsbæ og var talinn hafa rotast. Hann komst fljótt aftur til meðvitundar en var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Hlíðahverfi þar sem þrjár bifreiðar rákust saman. Engin slys urðu á fólki en bílarnir voru allir fjarlægðir af dráttarbifreið.

Í miðborginni stöðvaði lögregla ökumann ótryggðrar bifreiðar. Þegar rætt var við ökumann, sem var jafnframt eigandinn, vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Var hann þá handtekinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×