Innlent

Ekkert sem minnir á vorið að finna í langtímaspá

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur trú á að landsmenn nái að aðlagast veðurfarinu. Hann segir að vetrarveðráttan á Íslandi sé síbreytileg en mikill snjóþungi ætti þó ekki að koma mikið á óvart.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur trú á að landsmenn nái að aðlagast veðurfarinu. Hann segir að vetrarveðráttan á Íslandi sé síbreytileg en mikill snjóþungi ætti þó ekki að koma mikið á óvart. vísir/vilhelm

Á suðvesturhorninu horfir nú allt til betri vegar hvað veður og færð snertir en hægfara skil munu plaga íbúa á Suðausturlandi í dag þar sem allt útlit er fyrir samgöngutruflanir.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar og Bliku kveðst ekki sjá neitt sem minni á vorið í langtímahorfum. Íslendingar verði að aðlagast veðurfarinu - þeir hafi löngu sýnt að þeir séu þess megnugir.

Það er ekki ofsögum sagt að hríðarveðrið í gær hafi sett samgöngur á suðvesturhorninu í uppnám en um tvöleytið er stefnt að opnun vegar um Hellisheiði. Vegurinn um Krýsuvík er hins vegar lokaður og það sama gildir um Mosfellsheiði en unnið er að mokstri. Suðvestantil herðir á frosti og er útlit fyrir að þar verði flughált í dag.

Einar segir að skilin séu nú farin austur yfir. Gul hríðarviðvörun mun gilda á landinu suðaustanverðu til klukkan 17.00 síðdegis.

„Það hefur heilmikill krapi fallið á vegi austan Víkur í nótt og í morgun. Úrkoman er að ágerast austur með ströndinni. Þau fara það hægt yfir þessi skil og jafnvel koma til baka að austan þeirra draga þau upp raka; snjókomu til fjalla og slyddu og rigningu á láglendi þannig að það er nú útlit fyrir að það verði hríðarveður meira og minna í dag og á morgun til dæmis á Fjarðarheiðinni og á Fagradal sem er nú þjóðbrautin þeirra fyrir austan að þar verður samfelld snjókoma meira og minna líka til morguns þannig að það er nú ekki útilokað og eiginlega bara mjög líklegt að snjórinn þar eigi eftir að valda einhverjum samgönguerfiðleikum á Austfjörðum.“

Lengi var útlit fyrir að djúp lægð sem nú er í Færeyjum myndi valda usla hér á landi á morgun en Einar segir að nú líti út fyrir að Ísland sleppi nokkuð vel. Næstu daga verður veðrið nokkuð skaplegt, ef suðausturhluti landsins er tekinn út fyrir sviga. Langtímahorfur sýni þó ekkert sem minni á vorið.

„Við þurfum bara að aðlagast veðrinu og veðurfarinu og við höfum sýnt það hingað til að við erum þess alveg megnug.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×