Innlent

Þórdís fer fram gegn nöfnu sinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kosið verður í fjögur efstu sætin í prófkjöri Viðreisnar.
Kosið verður í fjögur efstu sætin í prófkjöri Viðreisnar.

Þórdís Sigurðardóttir framkvæmdastjóri hefur ákveðið að sækjast eftir oddvitasætinu í prófkjöri Viðreisnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Nafna hennar Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, núverandi oddviti, sækist einnig eftir fyrsta sætinu.

Í tilkynningu um framboð sitt segist Þórdís Sigurðardóttir hafa, sem stjórnandi og ráðgjafi, öðlast mikla reynslu af farsælum umbreytingarverkefnum. Leiddi hún meðal annars verkefni sem varð til þess að Hjallastefnan, þar sem Þórdís var framkvæmdastjóri, fékk verðlaun fyrir „Byltingu í stjórnun“ frá Viðskiptaráði Íslands.

„Sá árangur sem ég hef náð í fyrri störfum byggist á því að auka völd og áhrif starfsfólksins sem raunverulega vinnur verkefnin. Árangurinn af þessari nálgun er aukin starfsánægja, færri veikindadagar og betri rekstrarárangur. Ég vil að svipaðar leiðir séu notaðar í auknum mæli í rekstri og stjórn borgarinnar með því markmiði að bæta þjónustu og auka virðingu við alla borgarbúa.

Til að bæta velferð og þjónustu í borginni er einnig mikilvægt að bregðast við ákalli atvinnulífsins um að stytta boðleiðir og einfalda ferla með raunverulegum hætti.Starfsemi atvinnulífsins í borginni er einn lykilþátta við að mynda sjálfbær og lífleg hverfi. Innviðir verða styðja við þá uppbyggingu.

Ég hef einlægan áhuga á hugmyndum sem varða hagsmuni borgarbúa og vil að hlustað sé á raddir íbúa hverfa með markvissari hætti. Með því tel ég að hægt sé að finna fjölbreyttar lausnir og valkosti þegar kemur að mikilvægustu þáttum nærþjónustunnar og varða borgarbúa mestu máli,“ segir Þórdís.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×