Enski boltinn

Everton og Brighton með örugga sigra | Markalaust í Lundúnaslagnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Everton vann langþráðan sigur í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Everton vann langþráðan sigur í ensku úrvalsdeildinni í dag. Gareth Copley/Getty Images

Everton og Brighton unnu örugga sigra í leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Everton vann 3-0 heimasigur á Leeds og Brighton sigraði Watford 2-0 á útivelli. Á sama tíma skildu Brentford og Crystal Palace jöfn, 0-0.

Seamus Coleman kom heimamönnum í Everton í 1-0 gegn Leeds strax á tíundu mínútu, áður en Michael Keane tvöfaldaði forystu liðsins tæpum stundafjórðungi síðar.

Staðan var því 2-0 þegar flautað var til hálfleiks, en Rodrigo átti tvö skot í slá fyrir Leeds í fyrri hálfleik og gestirnir því kannski óheppnir að vera tveimur mörkum undir í hléi.

Það var svo Anthony Gordon sem gulltryggði 3-0 sigur Everton með marki á 78. mínútu. Gordon átti þó ekki mikinn þátt í markinu, ekki viljandi allavega, en skot frá Richarlison hafði viðkomu í honum á leið sinni í markið.

Everton situr nú í 16. sæti deildarinnar með 22 stig eftir jafn marga leiki, einu stigi á eftir Leeds sem situr sæti ofar.

Þá vann Brighton góðan 2-0 útisigur gegn Watford á Vicarage Road. Neal Maupay kom gestunum yfir stuttu fyrir hálfleik og það var svo Adam Webster sem tryggði liðunu sigur á 82. mínútu.

Brighton situr í níunda sæti deildarinnar með 33 stig eftir 23 leiki, en Watford situr hins vegar í næst neðsta sæti með 15 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Að lokum gerðu Brentford og Crystal Palace markalaust jafntefli í Lundúnaslag dagsins. Liðin sitja í 12. og 14. sæti deildarinnar, Crystal Palace í því 12. með 26 stig og Brentford tveimur sætum neðar með tveimur stigum minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×