Fótbolti

Ofur­stjörnur Parísar stigu upp þegar mest á reyndi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir komu að sigurmarki PSG í kvöld.
Þessir tveir komu að sigurmarki PSG í kvöld. Sylvain Lefevre/Getty Images

Kylian Mbappé tryggði París Saint-Germain nauman eins marks sigur gegn Rennes í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir sendingu Lionel Messi.

Þó leikmenn á borð við Neymar, Sergio Ramos, Ander Herrera og Idrissa Gueye séu allir frá vegna meiðsla þá vantar ekki stór nöfn í lið Parísarliðsins. 

Mbappé var í fremstu víglínu, Messi var á vængnum, Marco Veratti og Julian Draxler á miðjunni og Achraf Hakimi, Marquinhos, Presnel Kimpembe og Juan Bernat í fjögurra manna varnarlínu.

Þrátt fyrir öll þessi stóru nöfn þá gekk lítið hjá heimamönnum að brjóta sterka vörn Rennes á bak aftur. Staðan var markalaus í hálfleik en þegar 65 mínútur voru liðnar hélt Mbappé að hann hefði komið heimamönnum yfir.

Eftir að markið var skoðað af myndbandsdómara leiksins þá var markið dæmt af þar sem Mbappé var rangstæður. Í kjölfarið voru Angel Di María, Gini Wijnaldum og Mauro Icardi sendir á vettvang til að sækja sigurinn.

Það var svo þegar komnar voru þrjár mínútur fram yfir venjulegan leiktíma þegar Lionel Messi kom boltanum Kylian Mbappé sem ísinn loks brotnaði. Mbappé kláraði færið af stakri yfirvegun og tryggði PSG 1-0 sigur.

PSG er sem fyrr á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar, nú með 59 stig á meðan Marseille er með 43 stig í 2. sæti. Rennes er í 5. sæti með 37 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×