Sport

Leynd ríkir yfir ástæðum þess að verðlaun voru ekki veitt

Sindri Sverrisson skrifar
Kamila Valieva sýndi mögnuð tilþrif þegar Rússar skautuðu til sigurs á mánudaginn. Nú ríkir óvissa um hvort liðið hljóti gullverðlaun.
Kamila Valieva sýndi mögnuð tilþrif þegar Rússar skautuðu til sigurs á mánudaginn. Nú ríkir óvissa um hvort liðið hljóti gullverðlaun. Getty/Jean Catuffe

Rússar, Bandaríkjamenn og Japanir áttu að taka við verðlaunum í gær eftir liðakeppni í listskautum á Vetrarólympíuleikunum í gær. Ekkert varð hins vegar af því og grunur leikur á að ástæðan tengist lyfjamálum.

Rússar, með hina 15 ára gömlu Kamila Valieva í broddi fylkingar, unnu sigur í keppninni á mánudaginn. Verðlaunaafhendingin átti að vera í gær en henni var frestað.

Mark Adams, talsmaður alþjóða ólympíunefndarinnar, segir að ástæða frestunarinnar sé sú að verið sé að skoða „lagalegt atriði“ sem tengist íþróttafólki sem hafi unnið til verðlauna.

Samkvæmt upplýsingum miðilsins Inside the Games tengist málið lyfjaprófum sem gerð voru í Peking fyrir leikana. Samkvæmt miðlinum hverfist málið um rússneska liðið sem þar með gæti mögulega horft á eftir gullverðlaunum sínum til Bandaríkjamanna.

Valieva var ein af fjórum rússneskum keppendum í listskautum sem ekki mættu á skipulagða æfingu í dag.

Kanada hafnaði í 4. sæti í liðakeppninni í listskautum og gæti því mögulega færst upp í bronsverðlaunasæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×