Enski boltinn

Chelsea borgar skaða­bætur vegna of­beldis sem fyrr­verandi leik­menn fé­lagsins urðu fyrir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chelsea þarf ekki að fara fyrir dómstóla.
Chelsea þarf ekki að fara fyrir dómstóla. Nick Potts/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur ákveðið að borga fjórum fyrrverandi leikmönnum félagsins skaðabætur vegna kynþáttaníðs sem þeir urðu fyrir af hálfu þjálfara sinna á tíunda áratug síðustu aldar.

Síðasta haust greindi Vísir frá því að fjórir leikmenn sem hefðu verið á mála hjá yngri liðum Chelsea á tíunda áratug síðustu aldar hefðu kært félagið vegna skelfilegs ofbeldis og kynþáttaníðs sem þeir urðu fyrir af hálfu Graham Rix og Gwyn Williams.

Allir leikmennirnir áttu það sameiginlegt að vera svartir á hörund. Þeir voru á aldrinum 14 til 18 ára þegar ofbeldið átti sér stað.

AP fréttastofan greinir frá að Chelsea hafi ákveðið að greiða mönnunum skaðabætur vegna málsins frekar en að fara með það fyrir dómstóla. Fær hver og einn þeirra að lágmarki 100 þúsund pund eða tæplega 17 milljónir íslenskra króna.

„Félagið er ánægt með að komast að niðurstöðu í málinu án frekari málaferla. Við munum einnig bjóða leikmönnum fyrrverandi áframhaldandi aðstoð vegna málsins,“ segir í yfirlýsingu frá Chelsea vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×