Enski boltinn

Þjálfaði tíu ára krakka fyrir fjórum árum en mætir Evrópumeisturunum í dag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Steven Schumacher mætir með C-deildarlið Plymouth Argyle á Stamford Bridge í dag.
Steven Schumacher mætir með C-deildarlið Plymouth Argyle á Stamford Bridge í dag. Nathan Stirk/Getty Images

Steven Schumacher, þjálfari Plymouth Argyle, starfaði fyrir fjórum árum sem þjálfari U-11 ára liðs Everton en í dag mætir hann með C-deildarliðið á Stamford Bridge þar sem Evrópumeistarar Chelsea bíða hans í fjórðu umferð FA-bikarsins.

Þetta verður aðeins tíundi leikur Schumacher við stjórnvölin hjá Plymouth, en hann var aðstoðarþjálfari liðsins fram í desember. Hann tók við stöðu aðalþjálfara þegar besti vinur hans og þáverandi þjálfari liðsins tók við Preston North End.

„Félagi minn sem ég vann mep hjá Everton hringdi í mig um leið og við unnum Birmingham í þriðju umferðinni og sagði mér að ég hefði farið frá því að þjálfa tíu ára krakka í það að spila gegn Evrópumeisturunum á fjórum árum,“ sagði Schumacher í samtali við BBC.

Eins og áður segir er Schumacher ekki sá reyndasti í þjálfarabransanum. Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, er hins vegar orðinn nokkuð sjáður í þeim bransa, en Þjóðverjinn var á dögunum valinn besti þjálfari heims af FIFA.

„Þetta verður svolítið erfitt ef ég á að vera hreinskilinn,“ segir Schumacher. „Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta verður erfiður dagur, en ég vill bara fagna því og reyna að njóta eins og ég get.“

„Ég fagnaði þegar við drógumst á móti Chelsea en hugsaði svo: „Guð minn góður. Við erum að fara að spila á móti Evrópumeisturunum á útivelli.“

„Ég held að allir þjálfarar myndu hugsa svona, en þetta má ekki verða yfirþyrmandi fyrir okkur. Við verðum að reyna að njóta þess að spila, setja saman plan og gefa allt sem við eigum í leikinn,“ sagði Schumacher að lokum.

Leikur Chelsea og Plymouth Argyle hefst klukkan 12:30 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×