Körfubolti

Garland og VanVleet valdir í Stjörnuleik NBA í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darius Garland er fyrsti leikmaður Cleveland Cavaliers til að komast í Stjörnuleikinn síðan að LeBron James yfirgaf félagið árið 2018.
Darius Garland er fyrsti leikmaður Cleveland Cavaliers til að komast í Stjörnuleikinn síðan að LeBron James yfirgaf félagið árið 2018. AP/Tony Dejak

Í gær kom það í ljós hvaða leikmenn fá að spila Stjörnuleik NBA-deildarinnar í ár í viðbót við þá leikmenn sem höfðu verið kosnir í byrjunarliðin.

Chris Paul og Devin Booker, bakvarðarpar Phoenix Suns liðsins sem er með langbesta árangurinn í deildinni, voru báðir valdir í Stjörnuleikinn en þeir voru tveir af sjö sem komu úr Vesturdeildinni. Paul sem er með 14,9 stig og 10,4 stoðsendingar í leik er að fara spila sinn tólfta Stjörnuleik en Booker, sem er með 25,4 stig, 5,4 fráköst og 4,3 stoðsendingar í leik er þarna í þriðja sinn.

Luka Doncic hjá Dallas Mavericks var valinn í þriðja Stjörnuleikinn sinn og sömu sögu er að segja að Utah Jazz leikmönnunum Rudy Gobert og Donovan Mitchell. Karl-Anthony Towns hjá Minnesota Timberwolves var líka valinn í þriðja sinn og Draymond Green hjá Golden State Warriors er í Stjörnuleiknum í fjórða sinn.

Einu nýliðarnir koma báðir úr Austurdeildinni en það eru bakverðirnir Darius Garland hjá Cleveland Cavaliers og Fred VanVleet hjá Toronto Raptors. Garland, sem er með 19,8 stig og 8,2 stoðsendingar í leik í vetur er fyrsti leikmaður Cleveland til að komast í Stjörnuleikinn síðan að LeBron James fór árið 2018. VanVleet er með 21,5 stig, 4,7 fráköst og 7,0 stoðsendingar að meðaltali með Toronto í vetur.

James Harden hjá Brooklyn Nets var valinn í Stjörnuleikinn í tíunda skiptið, Jimmy Butler hjá Miami Heat er kominn þangað í sjötta sinn og þá var Zach LaVine hjá Chicago Bulls valinn í annað skiptið. LaVine er með 24,9 stig að meðaltali í leik hjá Bulls.

Hinir tveir eru síðan þeir Khris Middleton hjá Milwaukee Bucks og Jayson Tatum hjá Boston Celtics sem eru báðir á leið í sinni þriðja Stjörnuleik.

Byrjunarliðsmennirnir í Stjörnuleiknum eru Stephen Curry og Andrew Wiggins frá Golden State Warriors, Ja Morant frá Memphis Grizzlies, LeBron James frá Los Angeles Lakers, Nikola Jokic frá Denver Nuggets, DeMar DeRozan frá Chicago Bulls, Trae Young frá Atlanta Hawks, Kevin Durant frá Brooklyn Nets, Giannis Antetokounmpo frá Milwaukee Bucks og loks Joel Embiid frá Philadelphia 76ers.

Draymond Green og Kevin Durant eru báðir meiddir og þess vegna verða væntanlega aðrir leikmenn kallaðir inn fyrir þá. Það á því eftir að fjölga í hópnum fyrir leikinn sem fer fram í Cleveland 20. febrúar næstkomandi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×