Enski boltinn

Segir að slæmt samband sitt við Arteta hafi átt stóran þátt í brottförinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samband Pierre-Emerick Aubameyang og Mikel Arteta var orðið ansi súrt undir lokin.
Samband Pierre-Emerick Aubameyang og Mikel Arteta var orðið ansi súrt undir lokin. Richard Heathcote/Getty Images

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrrum framherji Arsenal, segir að samband hans við þjálfara liðsins, Mikel Arteta, hafi verið orðið stirt og það hafi spilað stórt hlutverk í ákvörðun hans um að yfirgefa Arsenal og ganga í raðir Barcelona.

Aubameyang gekk í raðir Barcelona á frjálsri sölu á lokadegi félagsskiptagluggans eftir að leikmaðurinn hafði misst fyrirliðabandið hjá Arsenal í desember.

Bandið var tekið af framherjanum eftir að hann gerðist sekur um agabrot, en hann lék sinn seinasta leik fyrir Arsenal þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-1 tapi gegn Everton þann 6. desember.

Eins og áður segir var samband framherjans við Mikel Arteta, þjálfara liðsins, orðið stirt og leikmaðurinn segir að það hafi átt stóran þátt í ákvörðun hans um að yfirgefa félagið.

„Ég held að þetta hafi bara verið vandamál fyrir hann,“ sagði Aubameyang þegar hann var kynntur sem leikmaður Barcelona á heimavelli liðsins í vikunni.

„Ég get í rauninni ekki sagt ykkur mikið. Hann var ekki kátur og þannig var það bara. Ég get ekki sagt meira af því að það er það sem gerðist. Ég var ekki ánægður og ég hef það betra svona.“

Aubameyang segir að hann hafi upplifað erfiða tíma að undanförnu, en að hann hafi aldrei viljað gera neitt slæmt.

„Þetta voru flóknir mánuðir og stundum er fótboltinn bara þannig. Ef ég þyrfti að segja eitthvað um þetta þá myndi ég segja fyrir mína hönd að ég vildi aldrei gera neitt slæmt.“

„En það er í fortíðinni og ég þarf að gleyma þessu. Ég vil hugsa í núinu,“ sagði framherjinn að lokum.

Aubameyang gekk í raðir Arsenal í janúar 2018 og var því hjá félaginu í fjögur ár. Hann skrifaði undir nýjan þriggja ára risasamning við félagið í september 2020, en heimildir herma að þar sem að Börsungar eru í miklum fjárhagsvandræðum hafi framherjinn þurft að taka á sig umtalsverða launalækkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×