Heimsmarkmiðin

Leitað að verkefnastjóra fyrir trjáræktarátak í Afríku

Heimsljós
Gunnisal

Rauði krossinn á Íslandi styður trjáræktarátak Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríku. Stefnt er að því að planta og verja hundruð milljóna trjáa næsta áratuginn í samræmi við svæðisbundnar áætlanir. Rauði krossinn á Íslandi leitar að verkefna- og samhæfingarstjóra fyrir trjáræktarátakið.

Stefnt er að því að planta og verja 500 milljóna trjáa á ári, næstu tíu árin, í samræmi við svæðisbundnar áætlanir. Átakinu er ætlað að stuðla að aðlögun og mildun loftslagsbreytinga. Stuðningur Rauða krossins á Íslandi felst meðal annars í stuðningi við stórt trjáræktarverkefni í Sierra Leóne (sjá fyrri frétt), þátttöku í tæknilegum vinnuhóp framtaksverkefnisins og stuðningi við stöðu verkefna- og samhæfingarstjóra framtaksverkefnisins en sú staða hefur nú verið auglýst.

Verkefna- og samhæfingarstjórinn mun vinna innan teymis alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Afríku með aðsetur í Sierra Leóne. Starfið krefst ferðalaga um Afríku sunnan Sahara þar sem það felur í sér samhæfingu verkefna sem falla undir framtaksverkefnið og tæknilega aðstoð til landsfélaga sem innleiða trjáræktarverkefni. Starfið felur einnig í sér eftirlit og úttektir, stefnumótun, áætlanagerð og fjáröflun. Nánar má lesa um stöðuna á alfred.is


Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×