Fótbolti

Aðeins sá fimmti sem nær að vinna hundrað A-landsleiki á fótboltaferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andres Guardado var með allt á hreinu í sigurleiknum á Panama í gær.
Andres Guardado var með allt á hreinu í sigurleiknum á Panama í gær. Getty/Hector Vivas

Mexíkóinn Andrés Guardado komst í fámennan hóp í gær þegar Mexíkó vann 1-0 sigur á Panama í undankeppni HM í Katar.

Wolves leikmaðurinn Raúl Jiménez skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok.

Miðjumaðurinn Andrés Guardado, sem leikur með Real Betis á Spáni, lék þarna sinn 173 landsleik fyrir Mexíkó en stóru fréttirnar voru þær að hann var þarna í sigurliði í sínum hundraðasta landsleik.

Það eru bara fjórir aðrir sem hafa náð því og spila þeir allir með evrópskum landsliðunum en það eru þeir Sergio Ramos, Iker Casillas, Cristiano Ronaldo og Xavi Hernández.

Ramos á metið en hann hefur tekið þátt í 131 sigurleik með spænska landsliðinu eða tíu fleiri en Iker Casillas sem átti einu sinni metið. Cristiano Ronaldo er nú í þriðja sæti með 108 sigurleiki og gæti því nálgast þessa tvo efstu menn en ólíklegt er að hann náði Ramos þótt að miðvörðurinn spili ekki fleiri landsleiki.

Guardado er 35 ára gamall og lék sinn fyrsta landsleik árið 2005. Hann gæti tekið þátt í sinni fjórðu heimsmeistarakeppni í Katar.

Þetta var alveg lífsnauðsynlegur sigur fyrir Mexíkó í baráttunni um eitt af þremur sætunum í Norður- og Mið-Ameríkuriðlinum sem hefur sæti á HM seinna á þessu ári.

Það er allt sem bendir til þess að Kanada, Bandaríkin og Mexíkó nái þessum þremur sætum en Mexíkó náði fjögurra stiga forskot á Panama sem er í fjórða sætinu eftir þessi úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×